Grunur um veggjalús í skála í Þórsmörk

Grunur leikur á því að veggjalýs hafi hreiðrað um sig …
Grunur leikur á því að veggjalýs hafi hreiðrað um sig í Skagfjörðsskála í Langadal.

Grunur leikur á því að veggjalús hafi gert vart við sig meðal björgunarsveitarmanna í  Hjálparsveit skáta í Kópavogi um liðna helgi þegar þeir gistu í Skagfjörðsskála Ferðafélags Íslands í Langadal í Þórsmörk.

Voru björgunarsveitarmennirnir staddir þar til að aðstoða FÍ við að loka skálanum fyrir veturinn. Vöknuðu nokkrir meðlima sveitarinnar með bitför sem þeir töldu ljóst að væri eftir veggjalús.

Veggjalúsin er hvimleið og þrálát og hreiðrar gjarnan um sig í timburhúsum. Bölvanlegt getur verið að losna við hana.

Stefán Jökull Jakobsson, umsjónarmaður fasteigna hjá Ferðafélagi Íslands, segir að ekki sé langt síðan önnur kvörtun barst vegna gruns um veggjalúsarbit í skálanum. Eftir athugun meindýraeyðis fannst hins vegar engin slík en þó nokkuð af roðamaur sem einnig getur skilið eftir sig bitför.

Getur auðveldlega borist

„Ég frétti af því að fólk hafi fengið bit um síðastliðna helgi. Fólk telur að þetta hafi verið veggjalús en það hefur ekki verið staðfest ennþá,“ segir Stefán.

Stefán Jökull Jakobsson er umsjónarmaður fasteigna hjá FÍ.
Stefán Jökull Jakobsson er umsjónarmaður fasteigna hjá FÍ.

Hann segir að til standi að senda meindýraeyði í skálann í næstu viku til að athuga málið og þá í framhaldinu grípa til viðeigandi ráðstafana. „Menn hafa náttúrlega áhyggjur þegar svona sögur koma þar sem það er veggjalúsarfaraldur í Frakklandi og þetta getur auðveldlega borist með ferðamönnum hingað,“ segir Stefán.

Þúsundir manna fara um skálann árlega

Skálanum er lokað yfir vetrarmánuðina. Að sögn Stefáns hefur verið hiti á skálanum undanfarin ár. Hins vegar sé í samráði við meindýraeyði verið að velta því upp hvaða kostir eru í stöðunni. Eitt af því sem kemur til greina er að taka hita af skálanum.

„Aðferðarfræðin við að losna við veggjalús er að frysta þetta. Því ef fryst er í þrjá til fjóra daga þá drepst hún,“ segir Stefán.

Hann áréttar að ekki sé búið að staðfesta að um veggjalús sé að ræða. „Fólkið sem var þarna um helgina taldi að það hafi séð veggjalús en það hefur ekki verið staðfest,“ segir Stefán.

Óumflýjanlegt 

Segir hann ávallt brugðist við ábendingum. „Þetta er óumflýjanlegt. Þetta fylgir fólki hvaðanæva að úr heiminum. Hótel á Íslandi hafa verið að fást við veggjalús og þetta er ævarandi verkefni. Veggjalúsin er orðin landlægt vandamál og við hjá FÍ erum heppin því það eru 15 ár síðan við fengum síðast staðfest tilfelli um þetta,“ segir Stefán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka