Hafa Palestínumenn ekki rétt til að verja sig?

Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og fyrrverandi formaður félagsins Ísland-Palestína.
Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og fyrrverandi formaður félagsins Ísland-Palestína. mbl.is

Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og fyrrverandi formaður félagsins Ísland-Palestína, gagnrýnir yfirlýsingar alþjóðasamfélagsins um rétt Ísraela til að verja sig og spyr hvort það sé ekki jafnframt réttur Palestínu. 

„Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir rótum þess vanda sem um er að ræða fyrir botni Miðjarðarhafs,“ segir Sveinn. Til útskýringar segir hann grunnvandann vera það hernám sem palestínska þjóðin hefur búið við meira og minna í 75 ár og alfarið frá sex daga stríðinu árið 1967, þegar Ísrael lagði undir sig alla Palestínu og meira til frá öðrum nágrannalöndum.

„Síðan þróuðust mál þannig að sú helmingaskipti Palestínu, sem Sameinuðu þjóðirnar gerðu að tillögu árið 1947, hún varð aldrei að veruleika.“ segir hann og bætir við að landrán á Vesturbakkanum hafi jafnframt farið sívaxandi frá þeim tíma. 

Palestínumenn annars flokks í Ísrael

„Það sem við höfum verið að horfa upp á núna og sérstaklega á þessu ári er sívaxandi árásir landræningja á Vesturbakkanum. Þar eru alþjóðalög brotin á hverjum degi af ísraelskum yfirvöldum því þessar landtökubyggðir eru ólöglegar,“ segir hann og bætir við að fólk sem býr á svæðinu geti ekkert gert, enda búið að skerða ferðafrelsi fólks sem þar með er lokað inni á svæðinu.

Sveinn segir Ísrael vera ríki aðskilnaðarstefnu þar sem réttindi íbúa fara eftir því hverrar trúar það er. „Í grunninn má líta á þetta eins og nýlendustefnu, hvernig ísraelska ríkið verður til,“ segir hann og bætir við að grunnurinn að stefnu Ísraelsmanna sé að landið sé gyðingaríki.

„Það búa 2 milljónir Palestínumanna í Ísrael og þeir hafa það skár en þeir sem eru á Gasasvæðinu og Vesturbakkanum. Þau eru samt annars flokks í Ísrael og það er ákaflega hætt við að þau muni fá að finna fyrir þessu núna.“

Meðlimur palestínsku öryggissveitarinnar ber sært barn inn á Al-Shifa sjúkrahúsið …
Meðlimur palestínsku öryggissveitarinnar ber sært barn inn á Al-Shifa sjúkrahúsið á Gasasvæðinu, í kjölfar loftárása. AFP/Mohammed Abed

„Þau munu aldrei ná sér eftir þetta“

Hann segir það hverjum manni ljóst að um sé að ræða ójafnan leik, þar sem valdahroki Ísraelsmanna sé gífurlegur og að þeir ráði yfir öllum fullkomnustu vopnum sem völ er á samanborið við handvopn og heimagerðar eldflaugar Palestínumanna.

Hann segist þó skilja að Palestínumenn hafi vilja gera eitthvað til þess að svara fyrir áratuga langa kúgun og ofbeldi.

„Það er sem þeim hafi kviknað ljós að Ísrael sé kannski ekki algjörlega ósigranlegt eða ósæranlegt.“

Spurður hvort árás Hamas-liða sé að einhverju leyti réttlætanleg í ljósi sögunnar segir Sveinn: 

„Fyrir mig sem hefur ekki trú á hernaðarlegri lausn þessara mála, og er á alfarið á móti beitingu vopna og öllum manndrápum, þá er náttúrulega skelfilegt að horfa upp á þetta. En maður reynir samt að sjá þetta í ljósi þeirra aðstæðna sem þetta fólk hefur búið við og hvað það þarf að berjast við. Því grimmd þessa hernáms er alveg gegndarlaus, niðurlægingin og hvernig er hugsað til barnanna sem þurfa að hlusta á allar sprengjurnar, þau munu aldrei ná sér eftir þetta.“

„Auðvitað hefur hver þjóð rétt til að verja sig

Sveinn segir að Evrópusambandið sé nú farið að benda á að árás Hamas-liða hafi verið brot á alþjóðalögum og að ekki sé farið að alþjóðalögum. Hann gagnrýnir að alltaf sé talað um rétt Ísraels til að verja sig og segir:

„Auðvitað hefur hver þjóð rétt til að verja sig, en hafa Palestínumenn ekki líka rétt til að verja sig? Þýðir réttur Ísraels til að verja sig, réttur til að ganga að nágrannaþjóð sinni dauðri? Það er tónn sem að hryðjuverkastjórnin sem er við líði í Tel Aviv talar fyrir.“

Í því samhengi segir hann ráðamenn í Ísrael tala opinskátt um að Palestínumenn séu meindýr sem þurfi að útrýma.

„Það er rasismi að tala svona um heila þjóð. Það er rasismi sem er við lýði í þessari ríkisstjórn Ísraels. Við megum ekki falla í þessa gryfju Ísraelsmanna. Réttur til að verja sig er ekki réttur til að útrýma nágrönnum sínum.“

Palestínumenn rýma hverfi á Gasasvæðinu í kjölfar loftárása frá Ísrael.
Palestínumenn rýma hverfi á Gasasvæðinu í kjölfar loftárása frá Ísrael. AFP/Mohammed Abed

Fyrsta landið til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu

Aðspurður segir hann mikilvægt að stjórnmálamenn á Íslandi minni sig á að Ísland sé í sérstöðu, enda fyrsta landið til að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki.

„Þeir eiga að muna það þessir leiðtogar okkar að íslenska þjóðin hefur stutt og mun styðja baráttu Palestínumanna fyrir sjálfstæði og frelsi og friði og mannréttindunum.“

Palestínumenn ekki að ráðast inn í Ísrael

Sema Erla Serdaroglu, stjórnmála- og Evrópufræðingur, er meðal þeirra sem hefur fjallað um átökin milli Palestínu og Ísraelsríkis. Í facebook færslu sinni segir hún ekki um að ræða stríð milli ríkjanna, heldur hafi Palestína í meira en 75 ár verið fórnarlamb vestrænnar nýlendustefnu, hernáms síonista og stríðaglæpa ísraelskra stjórnvalda. 

Hún segir mikilvægt að hafa í huga að Palestínumenn séu ekki að ráðast inn í Ísrael eða fara yfir ísraelsk landamæri, heldur hafi Palestínumenn eyðilagt hluta af aðskilnaðarmúr sem ísraelsk stjórnvöld reistu á palestínsku landsvæði og þar með endurheimt stolt palestínsksa landsins. 

Ekki náðist í Semu Erlu við vinnslu fréttarinnar, en færslu hennar má lesa hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert