„Hvernig verðum við dæmd?“

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri, Guðlaugur Þór Þórðarson og Hörður Arnarson, …
Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri, Guðlaugur Þór Þórðarson og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar á haustfundi Landsvirkjunar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Loftlagsmálin snúast um græna orku,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í ræðu sinni á haustfundi Landsvirkjunar í dag.

Á haustfundinum var fjallað um allt það helsta í þróun orkumála á Íslandi. Sjónum var m.a. beint að broguðu leyfisveitingaferli, raforkueftirspurn næstu áratugina, orkuskiptum og áhrifum fullselds raforkukerfis.

Þurfum að herða okkur

„Við erum á þeim tímamótum Íslendingar að það er fullkomið rannsóknarefni af hverju við höfum ekki rætt loftlagsmál í mjög langan tíma. Eftir að hafa tekið við þessum málaflokki þá veit ég að það er mikið verk að vinna. Við byggjum á gríðarlega traustum grunni en það er ekki okkur að þakka. Það er foreldrum okkar að þakka, öfum okkar og ömmum. Við getum aldrei fullþakkað þeim hvernig þau skilja við fyrir okkur þegar það kemur að orkumálum Íslendinga.

En svo er það spurningin. Hvernig verðum við dæmd? Verða börnin okkar og barnabörn jafn hreykin af okkur og við getum verið hreykin af þeim sem á undan gengu? Eins og staðan er núna þá þurfum við virkilega að herða okkur til þess að svo megi verða,“ sagði Guðlaugur meðal annars í ræðu sinni.

„Miðað við punktstöðuna þá erum við búin að minnka losun um 12% frá viðmiðunarárinu 2005 og miðað við síðustu sviðsmyndir þá erum við að ná samdrætti upp á 26%. Við þurfum að ná 40% fyrir árið 2030 og 2030 er á morgun. Ef við náum því ekki þá þurfum við að kaupa losunarheimildir og kostnaðurinn miðað við forsendur núna er 1-10 milljarðar á ári. Ef við náum hins vegar markmiðinu þá seljum við loftlagsheimildir og höfum tekjur af því eins og við höfum haft á undanförnum árum. 

Stöðnun á framleiðslu grænnar orku

Á undanförnum 15 árum hefur verið algjör stöðnun í framleiðslu á grænni orku á Íslandi og á þessum miklu uppbyggingartímum á Íslandi þá höfum við að meðaltali verið að auka uppsett afl um 24 megavött á ári. Þess vegna erum við að horfa á þessi vandræði sem við erum að horfa á í dag. Þetta snýst um að okkur vantar græna orku,“ sagði Guðlaugur.

Guðlaugur sagði að nú sé verkefnið að taka gráu orkuna sem er eftir, sem er í flugvélum, bílum og skipum og gera hana græna. 

„Landsvirkjun gegnir lykilhlutverki i öllu þessu og það eru engar hugmyndir uppi mér af vitandi um neina breytingu á eignarhaldi Landsvirkjunar,“ sagði Guðlaugur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert