Lögmaðurinn fær ekkert greitt að svo stöddu

Landsréttur segir að bíða þurfi niðurstöður í málinu áður en …
Landsréttur segir að bíða þurfi niðurstöður í málinu áður en lögmaðurinn fái greitt. mbl.is/Jón Pétur

Landsréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um greiðslu þóknunar lögmanns í tengslum við störf hans sem verjanda fyrir karlmann sem grunaður er um manndráp á konu í heimahúsi á Selfossi í apríl og sat í gæsluvarðhaldi í 18 vikur.

Vildi upphaflega fá 13,9 milljónir

Hafði lögmaðurinn, sem var verjandi mannsins frá 27. apríl til 11. ágúst, farið fram á 13,9 milljónir í málsvarnarlaun. Héraðsdómur úrskurðaði að greiða skyldi manninum 6,1 milljón, en Landsréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að þar sem málinu væri ekki lokið þyrfti að bíða niðurstöðu dómara í málinu sem myndi ákveða þóknun verjenda. Var úrskurður héraðsdóms um að hann ætti skilið að fá 6,1 milljón því felldur niður og verður það að bíða útkomu málsins hvað lögmaðurinn fær á endanum greitt.

441 vinnustund og 5.115 km akstur

Málið hefst á því að lögmaðurinn, Sverrir Sigurjónsson, var skipaður verjandi karlmanns sem ákærður er í manndrápsmálinu á Selfossi í lok apríl. Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að Sverrir hafi 17. júlí sent embætti lögreglustjórans á Suðurlandi reikning upp á 13,9 milljónir fyrir 440,95 vinnustundir, en hver vinnustund var upp á 24.300 krónur auk virðisaukaskatts. Jafngildir það rúmlega 55 fullum átta stunda vinnudögum yfir 70 daga tímabil. Þá er tiltekinn akstur upp á samtals 5.115 km og kílómetragjald upp á 121 krónu.

Fram kemur að Sverrir hafi fengið símtal frá sakborningi málsins 15. júlí um að hann myndi skipta um verjanda og hafi reikningurinn verið sendur í kjölfarið, þó að formlega hafi nýr lögmaður ekki tekið við fyrr en 11. ágúst.

Ræddu um daginn og veginn

Sverrir rökstuddi umfangsmikla vinnu sína þannig að rannsóknin hafi verið afar yfirgripsmikil og þá hafi sakborningurinn meðal annars verið látinn sæta einangrun sem hafi verið honum mikið áfall og að honum hafi liðið illa vegna andlátsins. Hafi Sverrir því verið í stöðugu sambandi við sakborninginn á meðan á einangrunarvistinni stóð, auk þess að vera viðstaddur fjölmargar skýrslutökur og húsleitir. Vegna þessa hafi hann ávallt þurft að vera til taks og hafi meðal annars misst af áður ákveðnum ferðalögum og uppákomum sem hann hafi verið búinn að bóka í sumar og greitt fyrir.

Í úrskurðinum kemur fram að tímaskýrslurnar séu alls 13 blaðsíður með 167 færslum vegna vinnu og 47 færslum vegna aksturs. „Áberandi er í færslum vegna vinnu að þar eru tilteknar margar ferðir og margar vinnustundir sóknaraðila í fangelsið að Hólmsheiði til að tala við sakborning og er á stundum tiltekið að rætt sé um daginn og veginn,“ segir í úrskurðinum og tiltekið er að verjandinn hafi meðal annars fært honum ýmsar vörur, snakk, drykkjarvörur og DVD-diska. Einnig hafi verjandinn varið verulegum tíma í að hughreysta sakborning og rætt við hann á nótum sálgæslu.

Varðaði ekki raunverulegar starfsskyldur verjandans

Segir í úrskurðinum að fjöldi færslna í tímaskýrslunni varði því ekki raunverulegar starfsskyldur verjandans, svo sem vegna viðveru við skýrslugjöf sakbornings, viðveru vegna rannsóknaraðgerða og vinnu í dómsal eða undirbúning slíkrar vinnu og greinargerðarskrifa.

Var það álit héraðsdóms að verulegur hluti skráðrar vinnu væri utan starfsskyldu lögmannsins, sem og hluti akstursins. Hafi margar ferðir verið óþarfar og rétt hefði verið að sinna þeim með símtali.

Samþykkti héraðsdómur samtals þóknun upp á 6,1 milljón með virðisaukaskatti og 1.080 km akstur.

Landsréttur segir að bíða þurfi niðurstöðu málsins

Sverrir sætti sig ekki við þessa niðurstöðu og kærði úrskurðinn til Landsréttar. Sem fyrr segir féllst Landsréttur ekki á fyrri niðurstöðu héraðsdóms og vísaði til þess að dómari ákveði þóknun verjanda í dómi eða úrskurði ef máli ljúki. Þó sé þar undantekning ef máli ljúki ekki, en það eigi ekki við í þessu tilfelli og er málið enn í gangi, en lögreglan bíður enn krufningarskýrslu í málinu.

„Að þessu virtu var ekki tímabært að kveða á um þóknun varnaraðila með þeim hætt sem gert var,“ segir í úrskurði Landsréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert