Reykjavíkurborg óskar eftir samstarfsaðila og leigutaka sem er með hugmynd að rekstri og nýtingu Sunnutorgs - fasteignar við Langholtsveg 70, kemur fram í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar.
Áður hefur verið auglýst eftir hugmyndum fyrir Sunnutorg og var samtal í gangi við áhugasama aðila, en þær hugmyndir urðu ekki að veruleika. Að þessu sinni er um er að ræða forval en matsnefnd mun velja úr tillögum og verður þeim aðilum boðið til áframhaldandi viðræðna.
Óskað er eftir því að áhugasamir leggi fram hugmynd að starfsemi og endurbótum á húsnæðinu og upplýsingar um hvernig starfsemi fellur að því umhverfi þar sem húsnæðið stendur. Gert er ráð fyrir að viðsemjandi hagnýti húsnæðið á leigutímanum fyrir starfsemina. Áætlað er að gera leigusamning við þann aðila sem þykir eiga bestu hugmyndina að mati matsnefndar.
Umsækjendum er frjálst að nálgast viðfangsefnið frá þeim sjónarhóli sem þeim þykir áhugaverðastur. Í auglýsingu á vef Reykjavíkurborgar koma fram nánari upplýsingar um þau atriði sem fylgja eiga umsókn, segir í tilkynningu.
Umsóknarfrestur er til kl. 10:00 þann 21. nóvember 2023 á útboðsvef Reykjavíkurborgar.