Segir afsögn Bjarna vera óheiðarlegt „PR-stunt“

Píratinn Halldóra Mogensen segir að það sé ekki aðeins Bjarna …
Píratinn Halldóra Mogensen segir að það sé ekki aðeins Bjarna að axla ábyrgð, heldur ríkisstjórnarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halldóra Mogensen, þingkona Pírata, telur afsögn Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, ekkert nema óheiðarlega kynningarbrellu. Til þess að raunverulega axla ábyrgð eigi fráfarandi fjármálaráðherra að stíga út úr ríkisstjórninni.

Bjarni tilkynnti afsögn sína í gær, í kjölfar birtingar á niðurstöðum umboðsmanns Alþingis um sölu á hlut ríkis í Íslandsbanka,. Þó liggur ekki skýrt fyrir hver næstu skref ríkisstjórnarinnar verða – hvort Bjarni gangi alfarið úr ríkisstjórninni eða skipti einfaldlega um ráðherrastól við samstarfsmann.

Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármálaráðherra eftir að álit …
Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármálaráðherra eftir að álit umboðsmanns Alþingis var birt. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er náttúrulega ofboðslega skrítin staða. Það er eins og ákvörðun hafi verið tekin en svo vita þau [ríkisstjórnin] ekkert hvernig framhaldið verður,“ segir Halldóra í samtali við mbl.is

Ríkistjórnin sé „að reyna að klóra sig út úr þessu“

„Ég held að þau séu að reyna að klóra sig út úr þessu á sem bestan hátt. Það er augljóst að það er verið að mála þetta upp eins og þau hafi verið að axla ábyrgð í málinu,“ segir Halldóra.

Marg­ir hafa nefnt að Bjarni og Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra gætu haft stóla­skipti. Það þykir píratanum þó ekki boðlegt.

„Svo á bara einhvern veginn aðeins að færa til þannig að það kemur einhver annar sjálfstæðismaðurinn inn í fjármálaráðuneytið svo þau geti haldið stefnu sjálfstæðisflokksins áfram inni í fjármálaráðuneytinu,“ segir hún.

„Þetta er eitthvað svona „PR-stunt“ [kynningarbrella] sem ég er ekki alveg að átta mig á hvernig mun enda.“

Bjarni stígi úr ríkisstjórn

„Auðveldast væri ef fjármálaráðherra myndi axla ábyrgð með því að viðurkenna sín mistök í þessu máli, sjá af sér og hreinlega stíga út úr ríkisstjórninni,“ segir Halldóra. „Það væri líka langeðlilegast ef ríkisstjórnin myndi axla ábyrgð með því að segja að þau fóru ranga leið í þessu máli.“

„Það er rosalega mikið af upplýsingum sem eiga eftir að koma fram. Það er ekki búið að velta öllum steinum [í sölunni á hlut ríkisins í Íslandsbanka],“ bætir hún við.

„Þetta er bara einhver fjölmiðla-PR-leikur sem mér þykir bara vera ömurlegur og óheiðarlegur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert