Sýndu samstöðu með palestínsku þjóðinni

Einn mótmælandi óskar eftir samúðarkveðjum frá forsætisráðherra og utanríkisráðherra.
Einn mótmælandi óskar eftir samúðarkveðjum frá forsætisráðherra og utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Efnt var til samstöðufundar á Austurvelli síðdegis í dag. Hópur fólks lét sjá sig fyrir utan Alþingishúsið til þess að sýna palestínsku þjóðinni stuðning.

„Það er kominn saman hérna góður hópur af fólki til þess að styðja palestínsku þjóðina í sinni baráttu,“ segir Sema Erla Serdarolgu, formaður Solaris og einn skipuleggjenda.

Fimm samtök standa að baki fundinum. Eru það samtökin Andófið, BSD Ísland, No borders Iceland, Refugees in Iceland og Solaris – hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk.

Ekki nóg að skrifa bara undir pappíra

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að íslensk stjórnvöld sýni öllum aðilum stuðning og fordæmi alla stríðsglæpi og allan stríðsverknað sem framinn er. Ísland hefur viðurkennt sjálfstæði Palestínu og það þýðir líka að það þurfi að standa með palestínsku þjóðinni þegar á reynir,“ segir Sema Erla en Ísland var fyrsta ríkið til þess að viðurkenna sjálfstæði Palestínu.

„Það er ekki nóg að skrifa bara undir pappíra og láta svo eins og restin komi okkur ekki við.“

Hún segir þó að fréttaflutningur og opinber umræða um átökin hafi verið sérstaklega einhliða.

„Það er sorglegt að fylgjast með heimsbyggðinni enn og aftur láta Palestínu eina um að berjast fyrir tilvistarrétti sínum og við berum sérstaklega ábyrgð þar sem við höfum viðurkennt sjálfstæði Palestínu og stutt við þeirra málstað hingað til,“ segir hún.

„Við eigum aldrei að sitja hjá þegar verið er að fremja stríðsglæpi, þjóðernishreinsun og kerfisbundinn aðskilnað og við eigum að gera miklu betur en hingað til,“ segir hún.

Bæðis Palestínumenn og Íslendingar mættu á mótmælin.
Bæðis Palestínumenn og Íslendingar mættu á mótmælin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Öll mannsföll skrifist á ísraelsk stjórnvöld 

Hvað finnst þér þá um ódæðisverk Hamas-samtakanna?

„Auðvitað fordæmi ég það að drepa almenna borgara og það er aldrei í lagi, enda stríðsglæpur,“ svarar Sema. Hún vill samt meina að öll mannsföll í átökunum sé á ábyrgð ísraelskra stjórnvalda.

„Öll ódæðisverk eru hræðileg og allt mannfall er hræðilegt. Það er mjög mikilvægt að skoða það sem er hefur verið að gerast síðustu 75 ár, það er að palestínska þjóðin hefur búið við kúgun sem hún hefur reynt að berjast gegn hingað til og mun gera áfram. Allt mannfall sem verður í Ísrael og í Palestínu skrifast alfarið á ísraelsk stjórnvöld, sem hafa beitt palestínsku þjóðina ofríki og ofbeldi í meira en 75 ár.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert