„Þetta er afleiðing, þetta er ekki upphaf að neinu“

Hjálmtýr Heiðdal, formaður Félagsins Ísland - Palestína.
Hjálmtýr Heiðdal, formaður Félagsins Ísland - Palestína. Ljósmynd/Aðsend

Félagið Ísland - Palestína fordæmir undantekningarlaust árásir og morð á almennum borgurum, morðárásir Ísraelshers á innilokaða íbúa Gasa, morð og ofbeldi Ísraelshers gegn Palestínumönnum á Vesturbakkanum og svik alþjóðasamfélagsins, sérstaklega forystu Vesturlanda, við Palestínu í áratugi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu vegna átaka milli Ísraels og Palestínu sem hafa færst í vöxt í kjölfar árásar Hamarsliða á Ísrael um liðina helgi.

„Afleiðing af áralöngu ástandi“

„Þetta er afleiðing, þetta er ekki upphaf að neinu. Þetta er afleiðing af áralöngu ástandi sem ein þjóð, 14 milljóna þjóð hefur mátt þola í áratugi,“ segir Hjálmtýr Heiðdal, formaður Félagsins Ísland - Palestína.

Í tilkynningunni segir að yfirstandandi hernaður Ísraelshers, úr lofti, láði og legi, á innilokaða íbúa Gasastrandarinnar sé afleiðing þess að stjórnvöld í Ísrael hafa í áratugi getað stundað þjóðernishreinsanir og byggt upp ríki aðskilnaðarstefnu og ofbeldis. Í sjötíu og fimm ár hefur Ísrael brotið alþjóðalög, lög gegn stríðsglæpum, lög gegn landráni, lög gegn meðferð á hernumdu fólki - án afskipta alþjóðasamfélagsins.

Enginn séns á eðlilegu lífi

Á sama tíma vex hatur, segir Hjálmtýr. Þá segir hann aðgerðir Hamas-liða um liðinna helgi, þegar skotið var á fólk á tónlistarátið, sýna að komið er upp sérstakt ástand ungs fólks sem er uppfullt af örvæntingu og hatri, enda búið að vera innilokað frá því að það fæddist.

„Maður skilur ekki þankaganginn en maður skilur að þetta er fólk sem er búið að kúga og pína svona rosalega,“ segir hann.

Nú stendur yfir stórfelld árás á fólkið á Gasa, spítalar eru yfirfullir og Ísraelsher hefur lokað fyrir vatn, rafmagn og stöðvað flutning á mat, eldsneyti og lyfjum til innilokaðra Gasa búa. Þessi aðgerð er stríðsglæpur. Stjórnvöld Vesturlanda hafa nú náð nýjum hæðum í hræsni sinni og ætla að stöðva allan stuðning við Palestínu - til þess að styðja árás Ísraels. Einhliða fordæming vestrænna leiðtoga á Hamas er í raun skotleyfi á Palestínumenn, segir í tilkynningunni.

„Þetta er svakalegur aðbúnaður hjá fólki sem hefur engan séns á að lifa eðlilegu lífi og svo eru reglulega gerðar stórar árásir á heimili þeirra. Maður reynir að átta sig á því hvaða öfl eru í gangi og hvað orsakar, en heimbyggðin hefur svikið Palestínumenn og þeir eiga ekki von á neinni hjálp, þeir eru bara upp á sig sjálfa komnir. Það er ekki einu sinni hægt að fara með hjálpargögn til þeirra nema með samþykki ísraelska hersins.“

Réttur Palestínumanna til að verjast ekki viðurkenndur

Hjálmtýr segir flest Vesturlönd, önnur en Ísland og Svíþjóð, einungis viðurkenna tilvist Ísraels og því sé réttur Palestínumanna til að verjast ólöglögu herkví ekki viðurkenndur, „það er kallað hryðjuverk,“ segir hann. 

Félagið fordæmir þrátt fyrir það allar árásir á almenna borgara. „Það er engin afsökun til í stríð að ráðast á óvopnaða almenna borgara, en aðal atriðið virðist fordæming á Hamas-liða. Að Hamas-liðar hafi afhausað ungabörn, en ísraelski herinn er búinn að bera þessar fréttir til baka. Þrátt fyrir það grassera allskonar svona fréttir á samfélagsmiðlum, þannig að ástandið er rosalegt,“ segir Hjálmtýr.  

Frelsi til að brjóta lög án viðurlaga 

Þá segir jafnframt í tilkynningunni að Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra hafi rætt um mikilvægi alþjóðalaga fyrir smáríki eins og Ísland. Hjálmtýr segir þetta tal innihaldslaust þegar önnur þjóðin hefur frelsi til þess að brjóta þau að vild án viðurlaga. Sérstaklega í ljósi þess að Íslendingar eru með fulltrúa í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann segir einungis talað um Sádi Arabíu.

„Er ekki augljóst að beiting alþjóðalaga, sem er ætlað að vernda þjóðir og minnihlutahópa, eru grundvallaratriði í baráttu Palestínumanna. Allt tal um mikilvægi alþjóðalaga og alþjóðlegra sáttmála, án þess að leitast við að beita þeim til að vernda Palestínumenn, er hræsni.“

Engin miskun

Aðspurður segist Hjálmtýr ekki geta séð fyrir sér hvernig þetta enda ef alþjóða samfélagið bregst ekki við með afgerandi hætti.

„Þegar það er búið að lýsa því yfir að það sé verið að eiga við skepnur þá er engin miskunn,“ segir hann og minnist eyðilegginganna eftir árásir á Gasa árið 2009.

„Ég held að þetta verði miklu verra núna, sérstaklega ef þeir fara inn með her.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka