„Ég útiloka ekkert varðandi framtíðina,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fráfarandi fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi um hvort hann muni áfram sitja í ríkisstjórn en í öðru ráðuneyti.
„Ég tók eina ákvörðun í [gær] og ég á eftir að taka ýmsar aðrar ákvarðanir, en ég útiloka það alls ekki að ég verði áfram í ríkisstjórninni,“ segir Bjarni, en verst að öðru leyti allra frétta.
Bjarni sagði af sér embætti á blaðamannafundi í gærmorgun vegna álits umboðsmanns Alþingis á sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Hann kvað sér brugðið við niðurstöðu umboðsmanns og raunar miður sín yfir því áliti að sig hefði brostið hæfi í söluferlinu. Hann væri ósammála því, en hann virti álit umboðsmanns, sem gerði sér ókleift að starfa áfram í fjármálaráðuneytinu.
Finna þarf annan fjármálaráðherra og ekki síðar en um helgina, þegar halda á ríkisráðsfund á Bessastöðum.
Í því samhengi hafa margir nefnt að Bjarni og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra gætu haft stólaskipti, en hún er sögð treg til vegna mikilvægra og viðkvæmra verkefna á alþjóðavettvangi. Vel kann því að vera að horft verði til annarra breytinga á ráðherraliðinu.
Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að bæði innan Framsóknar og Vinstri-grænna hafi komið fram hugmyndir um stærri uppstokkun nú á miðju kjörtímabili, jafnvel þannig að flokkar skiptust á ráðuneytum. Í því samhengi mun einnig hafa verið rætt hvernig bregðast mætti við því ef umboðsmaður lýsti neikvæðu áliti á stjórnsýslu einhvers annars ráðherra.
Eflaust er vilji til einhverra slíkra breytinga og nefnt að þar sé m.a. horft til matvælaráðuneytis og umhverfisráðuneytis.
Þingflokkar Vinstri-grænna og Framsóknar munu í gær hafa sent eindregin skilaboð til sjálfstæðismanna um að þeir vildu halda stjórnarsamstarfinu áfram, óháð ákvörðun Bjarna eða breytingum sem af henni kynnu að leiða.
Hins vegar var viðurkennt að hnökrar væru á stjórnarsamstarfinu, sem nauðsynlegt væri að leysa og slétta úr ef stjórnin ætti að eiga raunhæfa möguleika á að kljást við viðfangsefni eins og verðbólgu, ókyrrð á vinnumarkaði og fleira.
Af þeim ástæðum ætla stjórnarflokkarnir að nota næstu dægur til þess að skerpa á aðaláherslum ríkisstjórnarinnar og efla liðsandann í stjórnarliðinu. Í því felst m.a. að reynt verður að kortleggja hvað það er sem veldur mönnum mestu hugarangri og hvernig sefa megi þær áhyggjur „í hvelli“, eins og einn stjórnarþingmaður orðaði það.
Áður boðaður sameiginlegur vinnufundur þingflokka stjórnarinnar á föstudag verður því vafalaust eftirminnilegur.