Tæplega 900 íbúðir gætu risið á Hlíðarenda á næstu árum ef skipulagshugmyndir ná fram að ganga.
Byggðir hafa verið fjórir reitir á Hlíðarenda, reitir C, D, E og F, og eru þar alls 673 íbúðir. Þá eru 40 íbúðir á B-reit í fjölbýlishúsinu Arnarhlíð 1 en það var fyrsta húsið sem reis í nýja hverfinu.
Skipting reita á Hlíðarenda er hér sýnd á grafi ásamt götuheitum. Eins og sjá má hefur byggðin verið þétt mikið umhverfis Knattspyrnufélagið Val.
Síðan íbúðir í Arnarhlíð 1 komu á markað árið 2017 hafa nýir stigagangar á reitum C-F komið í sölu með reglulegu millibili. Áformað er að hefja sölu á þeim síðustu á reit C við Hlíðarfót fyrir áramót.
Vestan við þessa fjóra reiti er áformað að reisa 460 íbúðir á reitum G, H og I. Uppbygging á H-reit við Hringbraut er komin vel á veg en áformað er að reisa þar 195 íbúðir. Jafn margar íbúðir eru áformaðar á G-reit en ætlunin er að hefja þá uppbyggingu fyrir áramót. Sunnan við G-reit hyggst Bjarg byggja um 70 íbúðir á I-reit.
Eins og Morgunblaðið fjallaði um nýverið hefur Valur jafnframt áform um að gera nýjan íbúðareit undir allt að 245 íbúðir austan við H-reit. Sú breyting sé í takti við áform borgaryfirvalda um þéttingu byggðar og í samræmi við gildandi aðalskipulag.
Þá hefur Valur óskað eftir að fá að breyta skipulagi A-reits þannig að íbúðum fjölgi á kostnað fermetra sem ætlaðir eru undir atvinnuhúsnæði.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.