Lögreglan á Suðurnesjum rannsakaði 69 mál vegna smygls á fíkniefnum, peningaþvættis og flutningi á reiðufé úr landi á síðasta ári, en það sem af er þessu ári hafa 58 slík mál komið inn á borð lögreglu.
Þá hefur aldrei fleiri farþegum verið vísað frá landinu á Keflavíkurflugvelli.
Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að í málunum sem um ræðir hafi sakborningar verið handteknir á Keflavíkurflugvelli við komu til landsins eða vegna gruns um að vera með illa fengið fé í fórum sínum á leið úr landi.
Lagt hefur verið hald á 65 kg af kókaíni, 14.000 töflur af oxycontini, 1.800 töflur af contalgini, 100 kg af kannabisi, amfetamínbasa og ýmis önnur efni sem bönnuð eru hér á landi.
Auk þessa hafa lögregla og tollgæsla lagt hald á um 60 milljónir króna í reiðufé og telst tolleftirlit í komusal flugstöðvarinnar því árangursríkt.
Fram kemur í tilkynningunni að árið 2022 hafi 80 einstaklingar setið í gæsluvarðhaldi að kröfu lögreglunnar á Suðurnesjum í samtals 2.903 daga árið 2022, eða 8 einstaklingar að jafnaði alla daga ársins.
Á þessu ári hafa 96 einstaklingar sætt gæsluvarðhaldi á sömu forsendum í samtals 2.617 daga, eða um tíu einstaklingar á dag.
Þá hefur aldrei fleiri farþegum verið vísað frá landinu á Keflavíkurflugvelli við komu þeirra til landsins og eru 258 frávísunarmál skráð það sem af er ári. Fer þar mest fyrir frávísun einstaklinga frá landinu vegna tengsla þeirra við brotastarfsemi.
Í tilkynningunni segir að mikilvægt sé að starfsemi lögreglu og tollgæslu á Keflavíkurflugvelli sé öflug og að vel þjálfaður mannskapur sé til staðar auk nauðsynlegs tækjabúnaðar og viðunandi starfsaðstöðu.
Auk þess sé samstarf Evrópuríkja á sviði lögreglusamstarfs og landamæraeftirlits sem byggist á Schengen samningnum er gríðarlega umfangsmikið og krefjandi, ekki síst fyrir Ísland vegna fjarlægðar landsins frá meginlandi Evrópu.