Borgarráð samþykkti einróma á fundi sínum í morgun að fylgja eftir tillögum vöggustofunefndar sem fram komu í skýrslu nefndarinnar sem birt var þann 5. október.
Borgarráð samþykkti að vísa skýrslu vöggustofunefndarinnar í heild sinni til umræðu í borgarstjórn þann 17. október næstkomandi, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Vöggustofunefndin setur fram alls fjórar tillögur:
„Stjórnvöld meti það út frá niðurstöðum í skýrslunni hvort og þá að hvaða marki verði leitast við að rétta hlut þeirra einstaklinga sem vistaðir voru á Vöggustofunni Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins með fjárgreiðslu í formi skaðabóta. Tekin verði afstaða til þess hvort rétt sé að fara aftur þá leið sem farin var með setningu laga nr. 47/2010 og núgildandi lögum þá breytt til þess horfs að unnt sé að fjalla um umsóknir þeirra sem vistaðir voru á báðum vöggustofunum á meðan þar var sólahringsvistun. Sú leið byggir á því að leyst sé úr hverju máli fyrir sig á grundvelli krafna tjónþola. Önnur fær leið væri að sett væru ný lög sem heimiluðu að greiddar verði skaðabætur á almennum grundvelli. Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er frumvarp forsætisráðherra um sanngirnisbætur sem ætlað er að taka af skarið í þessum efnum og skapa umgjörð og farveg fyrir þær.“
„Vöggustofunefndin telur brýnt að stjórnvöld leggi á það ígrundað mat hvort og þá hvaða þörf sé á að tryggja geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu eða aðra sértæka aðstoð fyrir þá sem
dvöldu á vöggustofunum. Við það mat verði þá tekið mið af þeirri reynslu sem þegar liggur fyrir í þeim efnum. Við nánara mat og undirbúning á frekari tillögum telur nefndin rökrétt og
eðlilegt að annaðhvort verði gerðar viðhlítandi ráðstafanir á vettvangi Reykjavíkurborgar til að tryggja að vöggustofubörn fái geðheilbrigðis- eða sálfræðiþjónustu eða, eftir atvikum, aðra sértæka aðstoð sér að kostnaðarlausu. Í því efni er þó æskilegt að skilgreina umfang og tímamörk þjónustunnar fyrirfram eftir almennum viðmiðum.“
Fram kemur til í tilkynningu borgarinnar, að borgarráð hafi samþykkt að fela skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, í samstarfi við sérfræðinga á þessu sviði, að láta vinna tillögu um nánari útfærslu sem tryggir vöggustofubörnum kostnaðarlausa geðheilbrigðis- eða sálfræðiþjónustu sem fyrst.
„Vöggustofunefnd telur rétt að árétta fyrri ábendingar vistheimilanefndar, þar sem mikilvægt er að rýna reglulega þær aðstæður og umhverfi sem starfsmenn barnaverndar starfa í. Nefndin telur því að niðurstöður hennar endurspegli nauðsyn þess að sveitarfélög tryggi að barnaverndarnefndir og starfsmenn þeirra hafi nægilegt svigrúm og tíma til að vinna hvert og eitt mál í samræmi við ákvæði laga og reglna. Sveitarfélög verði einnig að tryggja framboð af stuðningsúrræðum til að styrkja börn og fjölskyldur þeirra svo komast megi hjá vistun utan heimilis.“
Borgarráð samþykkti að vísa tillögu vöggustofunefndar um eftirlit og framkvæmd á sviði barnaverndarmála til umsagnar velferðarráðs og umdæmisráðs barnaverndar.
„Vöggustofunefndin telur rétt að borgarráð leggi á það mat, m.a. út frá niðurstöðum nefndarinnar hvort tilefni sé til að framhald verði á athugun af þeim toga sem nefndin hefur
haft með höndum og þá í samræmi við þær almennu valdheimildir sem nefndinni eru fengnar með lögum 45/2022. Við það mat verði þá eftir atvikum tekin afstaða til þess hvort
samsvarandi atriði og nefndin lýsti í vöggustofuskýrslunni hafi þá verið fyrir hendi frá og með árinu 1974 eða hvort rök standi fremur til þess að láta nú staðar numið með starf nefndar
samkvæmt lögum nr. 45/2022.“
Fram kemur í tilkynningunni að borgarráð hafi samþykkt að vísa tillögu vöggustofunefndar um frekari athuganir til umsagnar borgarlögmanns, velferðarráðs, öldungaráðs og mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs.