Efna til styrktarleiks fyrir Isaac

Þróttarar efna til styrktarleiks fyrir Isaac Kwateng á sunnudaginn.
Þróttarar efna til styrktarleiks fyrir Isaac Kwateng á sunnudaginn. mbl.is/Hákon

Þróttarar hafa ákveðið að efna til styrktarleiks fyrir Isaac Kwateng, vallarstjóra félagsins, á sunnudaginn en eins og fram hefur komið í fréttum stendur til að vísa honum af landi brott eft­ir sex ára bið og óvissu hér á landi.

Isaac, sem er frá Gana, kom hingað til lands árið 2017 og sótti þá um alþjóðlega vernd en á dögunum var honum tjáð að vísa ætti honum úr landi.

Allt Þróttarasamfélagið hefur nú ákveðið að sýna stuðning í verki fyrir Isaac og mun SR, varalið Þróttar sem hann hefur spilað með undanfarin þrjú ár, mæta stjörnuliði Þróttar. Í því liði verða leikmenn úr meistaraflokkum karla og kvenna auk óvæntum stjörnum sem gert hafa garðinn frægan með Þrótti. Leikurinn fer fram á leikvangi Þróttar, Avis-vellinum í Laugardal, á sunnudaginn og hefst klukkan 13. Aðgangseyrir er 2.000 krónur.

Staðan er óbreytt

„Við viljum leggja okkar að mörkum til að sýna honum stuðning. Hvernig sem fer er þá er lögfræðikostnaðurinn í kringum þetta mál orðinn gríðarlegur og við viljum reyna að létta undir með honum. Ef hann fer af landi brott þá þarf hann á fjárhagsstuðningi að halda þangað til að hann kemur aftur og við hvetjum alla til að mæta á leikinn og sýna honum stuðning,“ sagði María Edwardsdóttir, framkvæmdastjóri Þróttar, í samtali við mbl.is.

María átti fund með lögreglunni i dag og að hennar sögn þá er staðan óbreytt. Vísa á Issac úr landi á mánudaginn til Gana. „Við höldum áfram að reyna. Það liggja inni þrjár umsóknir og við vonumst til þess að hægt verði að fresta þessari brottvísun þar til búið verði að taka þær til efnislegrar meðferðar,“ segir María.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert