Ætla að tryggja skotíþróttum æfingasvæði

Borgarráð hefur samþykkt tvær tillögur starfshóps um framtíðarlausn og uppbyggingu …
Borgarráð hefur samþykkt tvær tillögur starfshóps um framtíðarlausn og uppbyggingu og staðsetningu svæiðis fyrir skotíþróttir. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Borgarráð hefur samþykkt að mælast til þess að stofnaður verði starfshópur í samvinnu við nágrannasveitarfélögin Ölfus og Voga, með það að markmiði að finna íþróttamiðstöð skotíþrótta framtíðarstaðsetningu. 

Jafnframt var samþykkt að vinna að aðalskipulagsbreytingu sem heimilar starfsemi skotfélaganna á Álfsnesi til ársloka 2028. 

Báðar tillögur starfshópsins samþykktar í borgarstjórn

Í tilkynningu Reykjavíkurborgar kemur fram að skipaður hafi verið starfshópur í janúar á þessu ári um framtíðarlausn og uppbyggingu og staðsetningu svæðis fyrir skotíþróttir, en hópurinn leitaði til EFLU verkfræðistofu sem vann áfangaskýrslu og kostnaðarmat fyrir mögulegar staðsetningar skotsvæðisins. 

Starfshópurinn hefur nú lokið störfum og skilaði hann minnisblaði ásamt tillögum og skýrslu til borgarstjóra í lok september. Í minnisblaðinu lagði hópurinn fram tvær tillögur sem báðar hafa verið samþykktar. 

Annars vegar er lagt til að borgarráð beini til stjórnar SSH að beina til svæðisskipulagsnefndar að stofna starfshóp í samvinnu við nágrannasveitarfélögin Ölfus og Voga, sem hefur að markmiði að finna framtíðarstaðsetningu íþróttamiðstöðvar skotíþrótta. 

Hin tillagan felur í sér að borgarráð feli umhverfis-og skipulagssviði borgarinnar að vinna að aðalskipulagsbreytingu sem heimili starfsemi skotfélaganna á Álfsnesi og tryggir öruggar heimildir fyrir starfseminni út árið 2028. 

Skoða 9 staðsetningar nánar

Í skýrslu EFLU er að finna 17 staðsetningar, bæði innan og utan höfuðborgarsvæðisins, en lagt er til að 9 þeirra verði skoðaðar nánar. 

Þar kemur einnig fram að staðsetning skotíþróttasvæðis utan alfaraleiðar eigi ekki endilega að vera meginviðmið í staðarvali. Svæðum utan alfararleiðar sé ætlað að vera kyrrlát og séu þau líkleg til þess að hafa útivistargildi til framtíðar.

Þá séu umhverfisáhrif hlutfallslega minnst séu skothvellir staðsettir í grennd við aðra starfsemi eða landnýtingu sem veldur neikvæðum áhrifum, svo sem við hraðbrautir, akstursíþróttasvæði, iðnaðarstarfsemi og flugvelli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert