Manchester City notar íslenska aðferðafræði

Ólafur Hrafn Steinarsson fyrrum formaður Rafíþróttasamtaka Íslands, RÍSÍ, og stofnandi …
Ólafur Hrafn Steinarsson fyrrum formaður Rafíþróttasamtaka Íslands, RÍSÍ, og stofnandi Esports Coaching Academy, ECA. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ólafur Steinarsson, stofnandi Esports Coaching Academy, hefur undanfarna mánuði unnið að því að koma rafíþróttaþjálfun upp á næsta stig. Það gerir hann með vandaðri þjálfun fyrir rafíþróttaþjálfara sem og vinnu á bæklingum og verkferlum fyrir rafíþróttalið.

Undanfarna mánuði hefur ECA verið að vinna með fyrirtæki í Bretlandi sem sér um að endurmennta einstaklinga fyrir hönd ríkisins í Bretlandi og hefur verkefnið vakið mikla athygli þar í landi. Enska knattspyrnufélagið Manchester City hefur haldið úti rafíþróttadeild um nokkurt skeið en hefur hvorki verið með neinar æfingar né yngri flokka, heldur einungis keppnislið.

Í viðtali við Ólaf segir hann að íslenska fyrirmyndin sé að vekja mikla athygli erlendis og fleiri félög skoði möguleikann að hefja yngri flokka starf.

„Við förum í samstarf við fyrirtæki í Bretlandi sem sér um að endurmennta einstaklinga og sér um menntun fyrir hönd ríkisins í Bretlandi um að mennta þjálfara og búa þannig um að félög þar í landi geta farið að bjóða upp á rafíþróttaæfingar, sjálfstætt og í samstarfi við aðila á svæðinu.“

Hundruð foreldra og barna

Haldinn var kynningarfundur þar sem verkefnið var kynnt fyrir foreldrum og börnum í Manchester og var þétt setið á fundinum.

„Þau héldu kynningarviðburð fyrir skömmu þar sem mætti fulltrúi frá breska þinginu og hundruð foreldra og barna og sáu að það var mikill áhugi á málefninu og svo kom Manchester City inn í verkefnið. Manchester City hefur haldið úti rafíþróttaliði í smá tíma og meðal annars hafa þeir verið að keppa í leikjunum Fortnite og FIFA. Þau hafa aldrei verið með neinar æfingar né yngri flokka en fannst hugtakið áhugavert þegar þau lærðu frá samstarfsaðilanum okkar, Manchester Esports Academy, og þá var komist að samkomulagi um að vinna saman.

Fyrsta lendingin var að keyra sex vikna námskeið í tölvuleiknum Rocket League til þess að prófa og kanna áhugann. Það eru tuttugu krakkar skráðir í það og er keppt á laugardögum í sex vikur og eru æfingarnar keyrðar af æfingaseðlum frá ECA og svo er viðbótarefni sem kemur frá Manchester City sjálfu sem snýr að heilsu og hreysti og fleiri hæfileikum tengdum efninu. Þetta hefur farið glimrandi vel af stað og krakkarnir yfir sig ánægðir.“

Félögin að taka sín fyrstu skref

Ólafur er ánægður með framgang verkefnisins og er stoltur yfir því að lið á borð við Manchester City skuli taka af skarið og hefja þjálfun eftir íslenskri fyrirmynd.

“Mér finnst klikkað að hugsa til þess að batterí eins og Manchester City er að taka fyrstu skrefin sín í skipulagðri rafíþróttaþjálfun fyrir börn og er að gera það eftir íslenskri aðferðarfræði með þjálfurum sem eru þjálfaðir af íslensku fyrirtæki og vinna eftir æfingarseðlum sem eru búnir til hér á Íslandi. Verkefnið gengur rosalega vel og mikill áhugi að halda samstarfinu áfram og gera meira í framtíðinni.“

Ólafur Hrafn Steinarsson fyrrum formaður Rafíþróttasamtaka Íslands, RÍSÍ, og stofnandi …
Ólafur Hrafn Steinarsson fyrrum formaður Rafíþróttasamtaka Íslands, RÍSÍ, og stofnandi Esports Coaching Academy, ECA. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fleiri leikir á næstunni

Aðspurður hvort það sé á döfinni að hefja þjálfun í fleiri leikjum en Rocket League segir Ólafur margt vera í pípunum.

„Það er mikill áhugi að skoða EA FC 24 og virkja hann enda er þetta fótboltafélag og þar erum við líka í viðræðum við ýmsa aðila um hvernig má nota EA FC 24 sem ofanálag við hefðbundna fótboltaþjálfun til þess að auka leikskilning og þekkingu á taktík á yngri aldursárum í flokkunum. Langtímamarkmið með samstarfinu í Manchester er að þarna muni rísa rafíþróttaskóli eða rafíþróttafélag að íslenskri fyrirmynd sem keyrir í önnum og er með mismunandi leiki í boði. Þetta er mjög spennandi og hefur vakið áhuga frá fleiri stórum aðilum innan Bretlands.“

Frístundakortið er kveikjan

Hann segir einnig að það hjálpi til að byrja viðræður við aðila erlendis hve vel hefur tekist að styðja við þessa grein hér á landi.

„Það kemur breskur þingfulltrúi á kynningarfundinn og talar um vilja stjórnvalda í Manchester til þess að niðurgreiða þátttöku í námskeiðum fyrir þá sem annars hefðu ekki efni á því. Þetta kemur beint frá Íslandi, frístundakortið og frístundastyrkurinn er kveikjan að því að þátttakan í Rocket League-námskeiðinu þarna úti er niðurgreidd fyrir hluta af þátttakendunum. Þegar fólk heyrir hvað er búið að byggja hér á Íslandi vekur það mikla athygli og trú á að það sé hægt að byggja upp rafíþróttasamfélag á fleiri stöðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert