Sakborningar í skútumálinu áfram í varðhaldi

Mennirnir munu sitja inni áfram næstu fjórar vikur, en þeir …
Mennirnir munu sitja inni áfram næstu fjórar vikur, en þeir hafa verið ákærðir fyrir smyglið. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur samþykkti í dag áframhaldandi gæsluvarðhald yfir þremur karlmönnum sem ákærðir hafa verið í tengslum við skútumálið svokallaða, en þeir eru sakaðir um að hafa reynt að smygla 160 kg af hassi til landsins með skútu.

Arnþrúður Þór­ar­ins­dótt­ir, sak­sókn­ari hjá héraðssak­sókn­ara, staðfest­ir að farið hafi verið fram á áframhaldandi varðhald og að héraðsdómur hafi samþykkt beiðnina. Varðhaldið var framlengt í fjórar vikur eða til 8. nóvember og hafa þeir þá setið í varðhaldi í tæplega 20 vikur, en þeir hafa setið í gæslu frá 24. júní. Mennirnir voru ákærðir í síðasta mánuði vegna smyglsins.

Tveir mann­anna eru ákærðir fyr­ir stór­fellt fíkni­efna­brot. Menn­irn­ir, sem voru með 157 kíló af hassi og rúm 40 grömm af marijú­ana í skútu, voru á leið til Græn­lands þar sem þeir eru sagðir hafa ætlað sér að koma efn­un­um til sölu og dreif­ing­ar. Þeir voru hins veg­ar hand­tekn­ir um borð í skút­unni fyr­ir utan Reykja­nes 24. júní eins og fyrr seg­ir.

Þriðji maður­inn er ákærður fyr­ir hlut­deild að fíkni­efna­broti. Maður­inn tók að sér að fljúga frá Dan­mörku, þaðan sem skút­an var sjó­sett, til Íslands, þar sem hann hafði fengið fyr­ir­mæli um að kaupa búnað og vist­ir til verks­ins, auk ann­ars. 

Hann flaug frá Dan­mörku þann 22. júní og hitti ann­an ákærðu í fjör­unni við Garðskaga­vita í Suður­nesja­bæ seint að kvöldi 23. júní. 

Þangað hafði ann­ar ákærðu komið á gúmmíbát frá skút­unni, þar sem maður­inn færði hon­um ýms­ar vist­ir. Þar á meðal bens­ín og ut­an­borðsmótor sem hann hafði út­vegað, allt til þess að gera meðákærðu kleift að halda áfram sigl­ingu sinni með fíkni­efn­in til Græn­lands, að því er fram kem­ur í ákær­u máls­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert