Héraðsdómur samþykkti í dag áframhaldandi gæsluvarðhald yfir þremur karlmönnum sem ákærðir hafa verið í tengslum við skútumálið svokallaða, en þeir eru sakaðir um að hafa reynt að smygla 160 kg af hassi til landsins með skútu.
Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari hjá héraðssaksóknara, staðfestir að farið hafi verið fram á áframhaldandi varðhald og að héraðsdómur hafi samþykkt beiðnina. Varðhaldið var framlengt í fjórar vikur eða til 8. nóvember og hafa þeir þá setið í varðhaldi í tæplega 20 vikur, en þeir hafa setið í gæslu frá 24. júní. Mennirnir voru ákærðir í síðasta mánuði vegna smyglsins.
Tveir mannanna eru ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnabrot. Mennirnir, sem voru með 157 kíló af hassi og rúm 40 grömm af marijúana í skútu, voru á leið til Grænlands þar sem þeir eru sagðir hafa ætlað sér að koma efnunum til sölu og dreifingar. Þeir voru hins vegar handteknir um borð í skútunni fyrir utan Reykjanes 24. júní eins og fyrr segir.
Þriðji maðurinn er ákærður fyrir hlutdeild að fíkniefnabroti. Maðurinn tók að sér að fljúga frá Danmörku, þaðan sem skútan var sjósett, til Íslands, þar sem hann hafði fengið fyrirmæli um að kaupa búnað og vistir til verksins, auk annars.
Hann flaug frá Danmörku þann 22. júní og hitti annan ákærðu í fjörunni við Garðskagavita í Suðurnesjabæ seint að kvöldi 23. júní.
Þangað hafði annar ákærðu komið á gúmmíbát frá skútunni, þar sem maðurinn færði honum ýmsar vistir. Þar á meðal bensín og utanborðsmótor sem hann hafði útvegað, allt til þess að gera meðákærðu kleift að halda áfram siglingu sinni með fíkniefnin til Grænlands, að því er fram kemur í ákæru málsins.