Stöðvaðir með tæpar þrjár milljónir í reiðufé

Gífurlegar upphæðir á ferð, en ekki flugi eins og er.
Gífurlegar upphæðir á ferð, en ekki flugi eins og er. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness í máli tveggja erlendra ríkisborgara, sem voru handteknir rétt fyrir brottför með flugi með umtalsverða upphæð í reiðufé í fórum sínum í september. Er talið að um ágóða af ólöglegri starfsemi sé að ræða.

Er mönnunum gert að sæta farbanni til 26. október. 

Tilraun til brottfarar

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjaness að mennirnir tveir hafi verið á ferð úr landi með flugi Wizz Air þegar þeir voru stöðvaðir af tollgæslunni. Þar kom í ljós að einn þeirra hafði með sér 1.500.000 krónur og 4.100 pólsk slot meðferðis en hinn þeirra hafði með sér 339.500 krónur og 31.240 pólsk slot. Samtals voru þetta 1.893.500 krónur og 35.340 pólsk slot, sem samsvarar tæpum þremur milljónum króna.

Mennirnir tveir voru handteknir á Leifsstöð eftir tilkynningu frá tollgæslunni. 

Mögulegur peningaþvottur

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness er tekið fram að málið gæti tengst peningaþvætti. Þar segir:

„Til rannsóknar sé uppruni þeirra fjármuna sem sóknaraðili og meðkærði höfðu meðferðis, tengsl sóknaraðila við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og/eða erlendis, auk annarra atriða, s.s. tengsl við skipulagða brotastarfsemi á Íslandi. Að mati varnaraðila sé grunur um að sóknaraðili eigi aðild að skipulögðum útflutningi á ágóða af ólögmætristarfsemi á Ísland, peningaþvætti, og því sé mikilvægt að rannsaka og upplýsa málið eins vel og hægt sé, enda standi brýnir almanna- og einkahagsmunir til þess. Í samræmi við framangreint beinist rannsókn lögreglu að meintu peningaþvætti sóknaraðila og meðkærða, sbr. 264. gr.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert