„Við eigum ekkert laust fyrr en 24. október,“ sagði starfsmaður Max 1 á Bíldshöfða þegar blaðamann bar að garði. Var þar fullt í alla tíma í dekkjaskipti líkt og á tveimur öðrum dekkjaverkstæðum í Skeifu og á Höfða í morgun.
Margir vöknuðu upp við vondan draum í dag og eins og fram hefur komið þurfti að m.a. að loka Hellisheiði í morgun vegna vetraraðstæðna. Fjölmargir bílar þurftu á aðstoð að halda þar.
„Veturinn kemur sumum alltaf jafn mikið á óvart þegar kemur að dekkjaskiptum“ segir Sigurjón Árni Ólafsson, framkvæmdastjóri Max 1 í gamansömum tón.
„En svo kemur hvellurinn og þá þurfa 150-200 þúsund bílar dekk á einum degi,“ segir Sigurjón.
Hann segir algengt að fólk spyrji hvort það megi setja nagladekk undir bílinn en við því sé ekkert einfalt svar.
„Við höfum enga heimild til þess að segja að þú megir það því reglugerðin segir að þú getir sett þau undir 1. nóvember en umferðalögin segja að um leið komnar eru vetraraðstæður þá megir þú það. Við segjum hins vegar að um leið og lögreglan er búin að setja nagladekkin undir þá mátt þú gera það,“ segir Sigurjón kíminn.
Vísar hann til þess að gjarnan séu lögreglumenn og aðrir viðbragðsaðilar fyrstir til þess að bregðast við vetraraðstæðum með því að setja ný dekk undir bílinn.
Hann segir vandamálið með nagladekkin sé það að ekkert komi í stað þeirra við vissar aðstæður. Sérstaklega þegar vindur og hálka koma saman.
Hann segir þó allan gang á því hvort fólk velji að setja naglana eða annars konar dekk undir. Gjarnan geti þó fólk sem eingöngu er á höfuðborgarsvæðinu komist upp með að setja undir annars konar dekk, en þeir sem eiga erindi úti á land noti nagladekk.
Sigurjón segir mikla samkeppni á markaði. Þó frekar varðandi sölu á dekkjum en í dekkjaskiptunum sjálfum. Hann telur mikilvægt fyrir fólk að velta fyrir sér hvers konar dekk það setur undir. Þannig getur verið heil strætólengd á milli bremsuvegalengdar eftir ólíkum dekkjategundum.
„Það eru óþekkt dekk sem koma gjarnan frá Kína sem henta ekki endilega í íslenskum vetraraðstæðum. Eftir því sem dekkin eru dýrari því meira gúmmí er í dekkjunumk frekar en nælon,“ segir Sigurjón.