Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vildi ekki tjá sig um fyrirhuguð ráðherrastólaskipti þegar hann gekk af ríkisstjórnarfundi í dag.
Fyrr í vikunni sagði Bjarni að vegna álits umboðsmanns Alþingis myndi hann segja af sér sem fjármálaráðherra. Talið er líklegt að Bjarni og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra muni eiga stólaskipti, en þó er óljóst hvort stólaskipti kalli á frekari uppstokkun milli ríkisstjórnarflokkanna.
Ríkisráðsfundur er áformaður á Bessastöðum á morgun, en þar verður endurskipan ráðherraembætta staðfest.
Eftir ríkisstjórnarfundinn í morgun, sem var í styttra lagi vegna fundar þingmanna stjórnarflokkanna á Þingvöllum sem hefst nú um hádegi, var Bjarni spurður hvort hann ætlaði ekkert að tjá sig við blaðamenn um ráðherrastólaskipti og svaraði hann því til að hann ætlaði ekki að tjá sig við blaðamenn í dag um það.