„Við förum til Þingvalla á eftir og það leggst bara mjög vel í mig,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í Ráðherrabústaðnum í morgun.
Þingflokkar stjórnarflokkanna ætla að ræða málin og fara yfir stöðuna á Þingvöllum í dag en ríkisráðsfundur er áformaður á Bessastöðum á morgun, þar sem endurskipan ráðherraembætta verður staðfest.
„Ríkisstjórnarflokkarnir eiga vinnufundi reglulega og þessi fundur er búinn að vera á dagskrá síðan þingið var sett. Það kemur því ekkert á óvart að við skulum vera að fara á Þingvelli í dag,“ segir Guðrún.
Þið eruð væntanlega að fara að ræða þessa uppstokkun og þessi mál sem hafa verið í gangi?
„Jú væntanlega meðal annarra mála. Það eru mörg stór mál á þingmannaskrá ríkisstjórnarinnar í vetur og þau verða líka rædd meðal stjórnarflokkanna.“
Verða ráðherraskipti innan Sjálfstæðisflokksins. Það hefur verið rætt um Bjarna og Þórdís skipti um embætti?
„Ég veit bara ekkert hvort rætt verði um það á Þingvöllum í dag. Formaður Sjálfstæðisflokksins er með það í hendi sér hvernig hann vill skipa sínum ráðherrum,“ sagði Guðrún að lokum.