Formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa ekki greint þingmönnum frá breytingum á ráðherraskipan sem verða tilkynntar á blaðamannafundi á morgun.
Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is, að loknum fundi stjórnarflokkanna á Þingvöllum.
Fundinum lauk klukkan fjögur og eru ráðherrar nú í göngutúr um Þingvelli.
„Við vorum að ræða málin fram undan – þingveturinn, eins og við gerum á svona fundi. Við setjum niður og förum yfir hvernig við erum að meta stöðuna á næstu vikum og mánuðum, fram til áramóta, hvernig við eigum að forgangsraða,“ segir Katrín um fundinn.
Morgunblaðið greindi frá því í dag að á fundinum yrði rætt um málaflokka sem hafa verið til umfjöllunar í starfshópum stjórnarflokkanna síðustu tvo daga, meðal annars orku- og útlendingamál.
Aðspurð segir Katrín útlendingamálin ekki hafa verið rædd. „Við vorum í raun og veru bara að fara yfir stóru málin og forgangsmálin okkar.“
Sem eru hver?
„Það eru auðvitað fyrst og fremst efnahagsmálin, ná niður verðbólgu, kjarasamningar fram undan, hvernig við ætlum að undirbúa þá áfram, stöðu heimilanna, áhrif vaxtahækkana á stöðu heimilanna.“
Þá segir hún engar ákvarðanir hafa verið teknar.
Spurð hvort þingmenn hafi verið upplýstir um breytingar á ráðherraskipan svarar Katrín því neitandi.
„Það er eins og kunnugt er hver formaður sem á samtal við sinn þingflokk um það,“ bætir hún þó við.