Hafa heimild til að kæra til lögreglu

Matvælalager á Sóltún 20 var lokað og um 20 tonnum …
Matvælalager á Sóltún 20 var lokað og um 20 tonnum af matvælum hent þar sem þau voru geymd við óheilnæmar aðstæður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilbrigðiseftirlitið í Reykjavík hefur heimild í lögum til að kæra brot á matvælalöggjöf til lögreglu. Þetta kemur fram í samtali við þá Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóra Matvælaeftirlitsins, og Tómas G. Gíslason, framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. 

Eins og fram kom í frétt á mbl.is var farið í fordæmalausa aðgerð að umfangi og nokkrum tonnum af matvælum fargað á matvælalager í Sóltúni í síðustu viku. Þar voru þau geymd við óheilnæmar aðstæður. Á Vísi segir að magnið sé um 20 tonn.

Fram kemur í tilkynningu frá eftirlitinu að húsnæðið var ekki ætlað fyrir geymslu matvæla, ekki meindýrahelt og aðstæður þar óheilnæmar. 

Þá beinist rannsókn meðal annars að uppruna matvælanna og hvort að vera kunni að þeim hafi verið dreift til matvælafyrirtækja.  Ekki hefur verið hægt að staðfesta í eftirliti að svo hafi verið og engar kvartanir um veikindi sem tengja má við lagerinn.  

Ýmsar ástæður að baki eftirlitsferða

Óskar segir að þó stjórnendur matvælafyrirtækja beri ábyrgð á sinni starfsemi þá beri Matvælaeftirlitinu skylda til að grípa inn í ef aðstæður þykja kalla á það. Leggja hald á matvælin og í framhaldinu farga ef aðstæður kalla á það.

Tómas G. Gíslason
Tómas G. Gíslason

Hann segir að ýmsar ástæður geti legið að baki því að matvælum sé hent. Vara sé komin yfir síðasta söludag, komin sé ólykt af henni, hún sé ólögleg í dreifingu hér á landi, matvæli séu með röngum upplýsingum um innihald eða geymdar í óheilnæmum aðstæðum.

Spurðir hvernig mál komi til rannsóknar segir Óskar ýmislegt geta leitt til þess.

„Almennt getum við sagt að það að á ferðum okkar um eftirlitssvæði getum við rekist á eitthvað sem við teljum að þurfi að rannsaka betur. Við fáum ábendingar frá matvælafyrirtækjum, í gegnum ábendingarvef borgarinnar og í raun hverjum sem er,“ segir Óskar. 

Fara inn um opnar dyr 

Matvælaeftirlitið og eftir atvikum heilbrigðiseftirlitið hafa ekki heimild til að fara inn um læstar dyr. Til þess þarf úrskurð yfirvalda og aðstoð lögreglu en þeir segja aldrei hafa komið til þess.

„Almennt höfum við ekki farið og fengið dómsúrskurð. Eigendur geta hleypt okkur inn, svo eigum við að hafa aðgang að svæðum sem falla undir okkar eftirlitsverkefni. Svo getur verið að það sé opin hurð eða að einhver opni fyrir okkur. Í raun eru alls konar aðstæður sem leiða til þess að við förum inn í einhver rými,“ segir Óskar. 

Matvælaeftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er með málefni matvælalagers í Sóltúni á …
Matvælaeftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er með málefni matvælalagers í Sóltúni á sínum snærum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilja refsiþáttinn skýrari 

Almennt er gerð eftirlitsskýrsla um mál sem koma upp. Viðurlögin geta verið sektir en eins getur eftirlitið farið yfir það með sínum lögmönnum hvort einstök tilvik kalli á frekari aðgerðir í viðkomandi máli.

„Almennt myndum við vilja hafa þennan refsiþátt skýrari í matvælalöggjöfinni. Meðal annars hvað varðar stjórnvaldssektir. En það er einnig ákvæði í matvælalöggjöfinni sem að kveður á um að brot á henni geti verið refsivert. Við höfum ekki nýtt okkur þær heimildir enn sem komið er. Í slíkum aðstæðum myndi verða búin til kæra sem fer til rannsóknar hjá öðru stjórnvaldi. Það er mjög sjaldan að þessi leið sé farin hjá heilbrigðiseftirlitinu en er skoðað í hverju tilfelli,“ segir Óskar Ísfeld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert