„Við erum að fást við áratugagömul mál sem eru nú að koma upp á yfirborðið. Það er ekkert annað að gera en að bregðast við og láta laga þetta. Vonandi tekur það sem skemmstan tíma,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.
Eins og fram hefur komið hefur mygla greinst í skólahúsnæði í bænum, bæði í unglingadeildinni í Valhúsaskóla og á millistiginu í Mýrarhúsaskóla. Vandamálið í Mýrarhúsaskóla hefur reynst víðtækara en talið var í upphafi.
„Við þurftum að loka kjallaranum þar. Ástandið var verra en haldið var því botnplatan í húsinu virðist vera meira og minna blaut. Það eru hafnar aðgerðir við að skoða dren og brjóta upp þarna til að reyna að ræsa vatnið frá húsinu.“
Af þessum sökum var í vikunni tekið í notkun húsnæði á Eiðistorgi undir kennslu nokkurra bekkja. Um er að ræða húsnæði þar sem útibú Íslandsbanka var lengi vel en nú síðast var sjónvarpsstöðin Hringbraut þar til húsa.
Bæjarstjórinn var sjálfur að vasast í flutningunum þegar Morgunblaðið náði af honum tali í gærmorgun. Kvaðst hann vera með skrúfjárn á lofti og var nýkominn frá því að sækja lykla að húsnæðinu úr smíði. „Það er allt á fullu hérna í miðbænum okkar,“ segir Þór sem vonast til að þurfa ekki að taka í notkun húsnæði undir kennslu víðar.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.