Landið rís hraðar en áður

Kortið sýnir nær lóðrétta færslu á tímabilinu 7. ágúst til …
Kortið sýnir nær lóðrétta færslu á tímabilinu 7. ágúst til 6. október 2023, unnið úr gervitunglamyndum. Rauði liturinn merkir landris. Kort/Veðurstofa Íslands

Svo virðist sem land rísi nú hraðar en áður á Reykjanesskaga. Nýjustu GPS-mælingar gefa þetta til kynna, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

Morgunblaðið greindi fyrst frá því í byrjun september að landris væri hafið á skaganum að nýju, eftir að síðasta eldgosinu lauk þann 5. ágúst.

Sambærilegt aðdraganda fyrri eldgosa

Merki um landris mældust fljótlega eftir goslok. Landrisið er á svipuðum slóðum og það var fyrir eldgosið, sem stóð yfir í um 4 vikur.

„Fyrstu líkön sem keyrð hafa verið út frá gervihnattagögnum benda til þess að þensluna megi rekja til kviku sem er að safnast fyrir á um 10 km dýpi. Það ferli sem er í gangi núna er sambærilegt því sem sést hefur í aðdraganda fyrri kvikuinnskota í Fagradalsfjalli. Enn fremur sýna gögn að hraði á aflögun hefur aukist síðustu vikur,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Tekið er fram að líklegra sé nú en áður, að nýr kvikugangur myndist undir Fagradalsfjalli. Geti það orðið á næstu vikum eða mánuðum.

„Þetta myndi valda skjálftavirkni þegar kvika brýtur sér leið í gegnum stökka hluta jarðskorpunnar sem gæti endað með eldgosi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert