Ráðherrakapallinn ekki ræddur á Þingvöllum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. mbl.is/Freyr

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að þingmenn stjórnarflokkana muni aðallega ræða þingmálin á komandi vetri á fundi stjórnarflokkanna á Þingvöllum í dag. Ekki verði rætt um mögulegan ráðherrakapal þar, heldur eigi slík umræða heima innan flokkanna sjálfra. Þetta kom fram í máli hennar við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í morgun.

„Þessi dagur var löngu ákveðinn, vinnudagur þingflokka stjórnarflokkanna. Við ákváðum að halda honum þrátt fyrir atburði vikunnar og ætlum að nota daginn til að ræða stóru verkefnin framundan og þingmál vetrarins, samstarf flokkanna og öll þessi stóru mál,“ sagði Katrín.

Spurð út í ráðherrabreytingar eftir ákvörðun Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra að segja af sér segir Katrín að það verði að koma í ljós. „Breytingar á ráðherraembættum koma bara í ljós á morgun. Við erum fyrst og fremst að fara að ræða málin og veturinn fram undan,“ segir hún um fund dagsins.

Spurð nánar út í hugmyndir um að Bjarni og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra muni eiga stólaskipti segist Katrín lítið getað sagt. „Það er allskonar talað, en því miður get ég ekkert sagt þér um það. En það er auðvitað þannig að formenn flokka ræða þetta við sína þingflokka og það er ekki rætt á svona sameiginlegum fundi. Við erum bara að fara að fara að ræða það sem við erum að vinna saman um.“ Bætir Katrín við að hún hafi lesið allskonar kenningar á netinu um ráðherraskiptin, en að það verði allt saman bara að koma í ljós á morgun.

Í gær gagnrýndi stjórnarandstaðan meðal annars stöðuna eftir afsögn Bjarna og sögðu meðal annars fjárlagafrumvarpið í lausu lofti. Katrín gefur ekki mikið fyrir það og segir stjórnarandstöðuna hafa skotið púðurskotum. „Það er algjörlega úr lausu lofti gripið. Í fyrsta lagi er fjárlagafrumvarpið auðvitað komið til þingsins eins og öllum ætti að vera ljóst. Þar er það í vinnslu og afsögn fjármála- og efnahagsráðherra hefur auðvitað engin áhrif á það. Þingið er bara með málið og það er löngu búið að mæla fyrir því. Það er þannig og ég hef tekið það saman að það líða margir dagar á milli afsagnar ráðherra og ríkisráðsfundar þannig að þetta er ekki óvenjulegt í neinu samhengi.“

Þá er búið að boða til ríkisráðsfundar á Bessastöðum á morgun sem hefst kl 14:00. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert