Sendur til Gana í fylgd tveggja lögreglumanna

Þróttarar komu saman á aðalvelli félagsins í sumar til þess …
Þróttarar komu saman á aðalvelli félagsins í sumar til þess að sýna Isaac stuðning í verki. mbl.is/Hákon

Isaac Kwateng, vallarstjóri Þróttar, verður sendur til Gana á mánudag í fylgd tveggja lögreglumanna. Umsókn um frestun brottvísunar liggur fyrir hjá Útlendingastofnun en nú þykir ljóst að hún verður ekki tekin fyrir fyrr en búið er að vísa Isaac úr landi. 

Isaac, sem er frá Gana, kom hingað til lands árið 2017 og sótti þá um alþjóðlega vernd. Síðan þá hefur hann verið í baráttu við kerfið og árlega fengið símtöl um að nú eigi að vísa honum úr landi.

Því hefur þó aldrei verið fylgt eftir, en á dögunum var honum tjáð að búið væri að kaupa flugmiða og að honum yrði vísað úr landi á mánudaginn. 

Héldu í vonina

María Edw­ards­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Þrótt­ar, hefur verið Isaac innan handar undanfarna mánuði. Isaac starfar sem vallarstjóri hjá félaginu auk þess að spila með SR, varaliði Þróttar. Saman áttu þau fund með lögreglumanni í gær þar sem þau fengu þær upplýsingar að Isaac yrði sendur til Gana í fylgd tveggja lögreglumanna, á mánudag.

Þau héldu þó áfram í vonina um að svör bærust frá Útlendingastofnun í dag, vegna umsóknar sem þau lögðu þar fram um frestun brottvísunarinnar þar til búið yrði að taka fyrir umsókn hans um ríkisborgararétt.

Þar að auki hafa þau sótt um framlengingu á dvalar- og atvinnuleyfi, en slíkum umsóknum hafa þau skilað inn á sex mánaða fresti frá því Isaac hóf að starfa hjá félaginu. 

Enn hafa engin svör borist frá Útlendingastofnun og því telur María ljóst að þau muni ekki berast fyrr en það verður um seinan. 

Kveðju- og styrktarleikur

„Það er útlit fyrir að þetta verði einhvers konar kveðju- og styrktarleikur á sunnudaginn,“ segir María í samtali við mbl.is og vísar til styrktarleiks sem Þróttarar ákváðu að efna til fyrir Isaac. Með styrktarleiknum vill félagið leggja sitt af mörkum til að sýna honum stuðning.

María hvetur alla til að mæta, þar sem leikurinn verður jafnframt líklega kveðjuleikur fyrir Isaac. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert