Stjórnarflokkar til Þingvalla

Frá Þingvöllum.
Frá Þingvöllum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingflokkar stjórnarflokkanna munu funda sameiginlega á Þingvöllum í dag. Gert er ráð fyrir að fundurinn hefjist fyrir hádegi og standi fram eftir degi. Ríkisráðsfundur er áformaður á Bessastöðum á morgun, þar sem endurskipan ráðherraembætta verður staðfest.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins verða á fundinum ræddir þeir málaflokkar sem til umfjöllunar hafa verið í starfshópum stjórnarflokkanna síðustu tvo daga, en þar eiga sæti þingflokksformenn flokkanna og aðstoðarmenn ráðherra.

Þau mál sem rædd hafa verið í starfshópunum eru þau sem einkum hafa borið í milli í áherslum flokkanna og má þar nefna útlendingamál og orkumál, en einkum verður staða efnahagsmála, aðgerðir til að vinna bug á verðbólgu og húsnæðismál til umfjöllunar, svo nokkuð sé nefnt.

Stólaskipti líklegust

Hvað mögulegan ráðherrakapal í ríkisstjórninni varðar þá er það svo að flestir úr þingliði Sjálfstæðisflokksins sem Morgunblaðið hefur rætt við eru þeirrar skoðunar að líklegast sé að Bjarni Benediktsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hafi stólaskipti. Þó álíta ekki allir að best fari á því. Ef þannig færi að Bjarni Benediktsson hyrfi frá ráðherradómi um sinn myndi það kalla á breytingar á ráðherrahópi Sjálfstæðisflokksins og einnig mögulega uppstokkun ráðuneyta á milli stjórnarflokkanna.

Ef til þess kemur eru bæði Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn sagðir fylgjandi því að matvælaráðuneytið hverfi frá Vinstri grænum, enda er mikil gremja í gangi yfir framgöngu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra, ekki síst meðal Sjálfstæðismanna. Mögulegt er að Svandís fái á sig ákúrur frá umboðsmanni Alþingis vegna framgöngu sinnar í hvalveiðimálinu og verði tæpast vært í ráðuneytinu eftir það. Það mun þó vart leiða til þess að Vinstri grænir missi spón úr aski sínum. Þyrfti því að skjóta öðrum ráðherrastól undir Svandísi. Það myndi aftur á móti kalla á uppstokkun ráðuneyta á milli stjórnarflokkanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert