Alls bíða tæplega 2.000 manns eftir liðskiptaaðgerðum á hné og mjöðm en á þessu ári hafa þegar verið gerðar rúmlega 1.430 slíkar. Eru það nærri 90 fleiri aðgerðir en gerðar voru allt árið í fyrra.
Þetta kemur fram á heimasíðu Landlæknisembættisins en þar eru birtar upplýsingar um fjölda aðgerða og biðlista í byrjun október. Þrátt fyrir fjölgun aðgerða eru álíka margir á biðlista eftir þessari þjónustu og voru í byrjun ársins.
Sjúkratryggingar Íslands gerðu í mars samning við Klíníkina Ármúla og Handlæknastöðina í Glæsibæ um 700 liðskiptaaðgerðir á þessu ári þar sem sjúklingum var tryggð greiðsluþátttaka en fram að því þurftu sjúklingar sem fóru í slíkar aðgerðir hjá Klíníkinni að greiða fyrir þær sjálfir.
Sigurður Ingibergur Björnsson framkvæmdastjóri Klíníkurinnar hefur nú sent fjárlaganefnd Alþingis erindi þar sem kemur fram að miðað við framlagt fjárlagafrumvarp sé með öllu óljóst hvort verkefninu verði haldið áfram á næsta ári. Mikilvægt sé að löggjafinn sé meðvitaður um mikilvægi þess að kostnaðarþátttaka Sjúkratrygginga Íslands haldi áfram, enda afleiðingarnar af þeirri ákvörðun mjög miklar fyrir þann hóp sem þarf á umræddum aðgerðum að halda. Að öðrum kosti hafi þeir skjólstæðingar sem aðgerðanna þarfnast þann eina kost að greiða fyrir aðgerðirnar sjálfir og Klíníkin þann eina kost að forgangsraða verkefnum með öðrum hætti.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.