Bjarni Benediktsson, fráfarandi fjármála- og efnahagsráðherra og væntanlegur utanríkisráðherra, segist vera „fullur eldmóðs og tilhlökkunar“ um að hefja störf í utanríkisráðuneytinu.
Formenn ríkisstjórnarflokkanna – Katrín Jakobsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson – tilkynntu á blaðamannafundi í Eddu í dag að Bjarni, fráfarandi fjármála- og efnahagsráðherra, myndi skipta um embætti við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra.
Eftir að álit umboðsmanns Alþingis vegna sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka var birt sagði Bjarni af sér. Þó kvaðst hann ekki sammála álitinu.
Bjarni sagði á fundinum í dag að afsögn sín úr embætti hefði snúist um að „skapa frið“ í ríkisstjórn. Eftir að hafa rætt við marga samflokksmenn og samstarfsfólk í ríkisstjórninni „komi ekki annað til greina fyrir formann Sjálfstæðisflokksins“ að standa við stjórnarsáttmálann og halda ríkisstjórninni starfandi.
„Ég er fullur eldmóðs og tilhlökkunar að fara inn á þann vettvang,“ sagði Bjarni eftir að hafa tilkynnt stólaskipti sín við Þórdísi.
„Þar bíða stór verkefni. Það að standa vörð um hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi, ekki síst á það við nú þegar einhverjir mestu ófriðartímar eru sem við höfum upplifað um langt skeið,“ bætti hann við.
„Ég er sannfærður í hjarta mínu að við getum náð árangri fyrir þjóðina,“ sagði Bjarni.