Andrés Magnússon
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins leggur til breytta ráðherraskipan flokksins á þingflokksfundi í Valhöll klukkan 9.30 nú í morgun. Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að Bjarni verði utanríkisráðherra en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra.
Formenn stjórnarflokkanna efna til blaðamannafundar klukkan 11. Þar verður fjallað um erindi stjórnarinnar á síðari hluta kjörtímabilsins, með efnahagsmál í brennidepli. Klukkan 2 hefst svo ríkisráðsfundur á Bessastöðum, þar sem ráðherraskipti fara fram.
Undanfarna daga hefur verið um það rætt að frekari breytingar yrðu gerðar á ríkisstjórninni, jafnvel að ráðuneyti gengju á milli flokka, en tíminn þótti of skammur til slíks. Ekki er útilokað að þær geti orðið síðar í vetur, hugsanlega um áramót.
Leiðtogar stjórnarflokkanna hafa liðna daga átt fundi um hvernig bæta megi ríkisstjórnarsamstarfið og skerpa á stjórnarsáttmálanum, bæta vinnulag og jafna ágreining. Að sögn verður áherslan á efnahagsmál og þau mál sem góð samstaða er um. Stjórnarþingmaður taldi of mikið gert úr ágreiningsefnum, en mögulega þyrfti að grisja þingmálalistann.
Þingflokkar ríkisstjórnarinnar héldu sameiginlegan vinnufund á Þingvöllum í gær til þess að stilla saman strengi sína, en það segir kannski sína sögu að þetta er fyrsti slíki fundurinn á kjörtímabilinu.