Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir að fátt annað hafi verið í stöðunni en að fjármálaráðherra og utanríkisráðherra skiptu um ráðuneyti, ef ríkisstjórnarsamstarfið átti að halda.
Bjarni Benediktsson tilkynnti á blaðamannafundi fyrir hádegi að hann myndi skipta um embætti við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra.
Inga bendir á að Þórdís fái ekkert draumaverkefni í fangið þegar hún sest í fjármálaráðuneytið.
„Þetta kemur ekkert á óvart,“ segir Inga í samtali við mbl.is. „Það sem hefur verið sagt um að Bjarni ætti að stíga til hliðar eða annað slíkt – þá held ég nú að þetta ríkisstjórnarsamstarf hefði verið búið. Mér sýnist að þau hafi metnað til þess að reyna halda út kjörtímabilið.“
Eftir að álit umboðsmanns Alþingis vegna sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka var birt sagði Bjarni af sér sem fjármálaráðherra. Þó kvaðst hann ekki vera sammála álitinu. Inga kveðst ekki hafa mikla skoðun á því hvort fráfarandi fjármálaraðherra axli ábyrgð á réttan hátt með því að skipta um ráðuneyti við Þórdísi Kolbrúnu.
„Hann stígur úr því embætti og honum finnst greinilega eðlilegt að hann taki þá bara við því næsta,“ segir Inga.
Finnst þér það eðlilegt?
„Ég hef bara engar skoðanir á því. Ég veit bara að ef þau væri að reyna að halda saman þessari ríkisstjórn þá var lítið annað í stöðunni. Ég veit svo sem ekki hvenær Bjarni hyggst stíga af þessum pólitíska vettvangi en hann er greinilega ekki tilbúinn í það enn.
Hann er að reyna að vera trúverðugur fyrir sitt fólk – sinn flokk. Þannig maður veit svo sem ekkert hvaða afleiðingar það hefur.“
„Og ég er ekki viss um að Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur þyki þetta eitthvað draumaverkefni sem hún er að fá í fangið,“ segir Inga.
Út frá yfirlýsingunni á fundinum í morgun finnst henni líklegt að stefna ríkisstjórnarinnar verði óbreytt.
„Það virðist vera draumur þeirra allra að losna við okkar dýrmætustu eigur, sem eru bankarnir okkar. Það virðist nú bara vera þannig,“ segir Inga að lokum.