Kom ekki annað til greina

Frá blaðamannafundi formanna stjórnarflokkanna í dag.
Frá blaðamannafundi formanna stjórnarflokkanna í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég segi það bara alveg nákvæmlega frá hjartanu að ég steig út af blaðamannafundi á þriðjudaginn, algjörlega með opinn hug um það hvað ætti að gerast.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson á blaðamannafundi í morgun þar sem formlega var tilkynnt að hann muni taka við embætti utanríkisráðherra. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verður fjármálaráðherra.

Bjarni sagði ekki annað hafa komið til greina, eftir samtöl við flokksmenn og formenn stjórnarflokkanna, en að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram.

„Mín niðurstaða er sú að það komi í sjálfu sér ekki annað til greina fyrir formann Sjálfstæðisflokksins, sem efndi jú til þessa samstarfs, en að fylgja ríkisstjórnarsamstarfinu áfram eftir. Það yrði að mínu mati uppskrift að óróa og ákveðnum óstöðugleika, sem er andstætt því sem ég vil að verði næstu mánuðina.“

Stór verkefni bíða

Hann sagði stór verkefni bíða sín í utanríkisráðuneytinu.

„Þar þarf að standa vörð um hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi og ekki síst á það við nú þegar einhverjir mestu ófriðartímar eru sem við höfum upplifað um langt skeið.“

„Ég er sannfærður í hjarta mínu að við getum náð árangri fyrir þjóðina. Til þess er maður nú í þessu öllu saman,“ sagði Bjarni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert