„Kúplar sig út úr erfiðri stöðu“

Sigmundur Davíð segir fregnir dagsins munu hjálpa ríkisstjórninni að „skrölta …
Sigmundur Davíð segir fregnir dagsins munu hjálpa ríkisstjórninni að „skrölta áfram“. Samsett mynd

„Niðurstaðan er veikari staða Sjálfstæðisflokksins sem þó hjálpar kannski ríkisstjórninni að skrölta áfram, en mun ekki hjálpa til við að leysa erfiðu málin.“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, um þá ákvörðun Bjarna Benediktssonar að taka við embætti utanríkisráðherra og skipta þar með við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, sem verður fjármálaráðherra.

Sigmundur kveðst hafa búist við frekari breytingum í ríkisstjórninni.

„Þótt ég hafi oft séð þessa stjórn gera hvað sem er til að hanga saman þá hélt ég að nú hlyti að vera komin úrslitastundin, tækifæri til að hrista aðeins upp í þessu.

Það gekk ekki eftir og fyrir vikið heldur ríkisstjórnin áfram með Sjálfstæðisflokkinn í veikari stöðu, öll ágreiningsmálin óleyst. Það eina sem var nefnt var verðbólgan en sú umræða snerist ekki um neitt annað en að menn hefðu áhyggjur af henni.“

Hjálpi ríkisstjórninni að „skrölta áfram“

Hvað finnst þér um þá ákvörðun Bjarna að halda áfram í ríkisstjórn?

„Það má kannski segja að með þessu sé hann að forða sér úr innanlandspólitíkinni og ég gef mér það að hann hugsi sér að segja þetta gott eftir kjörtímabilið, en vera eitthvað á ferðinni um heiminn fram að því. Það að formaður Sjálfstæðisflokksins sé ekki lengur að stýra ríkisfjármálunum og virkur í innanlandsmálunum held ég að hjálpi ríkisstjórninni að skrölta eitthvað áfram, en veiki stöðu Sjálfstæðisflokksins innan stjórnarinnar.“

Spurður hvort hann telji Bjarna axla nægilega mikla ábyrgð með ákvörðun sinni, svarar Sigmundur:

„Þetta náttúrulega lítur út eins og hann hafi kannski ekkert hugsað sér að axla ábyrgð í þeim skilningi að fara úr pólitíkinni, heldur séð í þessu tækifæri til að kúpla sig út úr erfiðri stöðu og ágreiningsmálum, væntanlega vegna þess að hann hafi litið svo á að hann gæti ekki treyst á stuðning samstarfsflokkanna, en ætlað um leið að láta VG axla einhverja ábyrgð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert