Lögreglan lokaði B í nótt

Sverrir Einar Eiríksson og Vesta Minkute eigendur B. Lögregla lokaði …
Sverrir Einar Eiríksson og Vesta Minkute eigendur B. Lögregla lokaði staðnum í gærkvöldi. Samsett mynd

Lögregla lokaði í nótt skemmtistaðnum B, áður þekktum sem B5, vegna fjölda ungmenna inni á staðnum.

Þetta staðfestir Sverrir Einar Eiríksson, eigandi staðarins, í samtali við mbl.is.  

„Staðnum var lokað vegna þess að lögregla taldi að of margir hafi verið inni á staðnum.“

Greint var frá því í morgun að skemmtistað í miðborg Reykjavíkur hefði verið lokað og öllum gestum vísað út.

Segir sömu stúlkum hafa verið vísað út þrisvar

Sverrir segir sér hafa verið brugðið vegna þessa en dyraverðir hafi lagt ríka áherslu á að fólk undir lögaldri kæmist ekki inn.

„Samt náðu þessar stelpur einhvern veginn að smeygja sér inn,“ segir Sverrir um stúlkur sem hann kveður hafa verið vísað út þrisvar en síðan birst í fjórða skiptið á staðnum. Þær hafi síðan verið inntar eftir skýringum á því.

„Þær sögðu: „Við hlupum bara inn þegar dyravörðurinn sá ekki til“.“

Kveðst miður sín

„Ég var miður mín þegar ég heyrði þetta og skil ekki almennilega hvernig þetta gat gerst.“

Sverrir minnist á að þetta vandamál hafi fylgt skemmtistaðarekstri um langt skeið, allt síðan á miðjum sjöunda áratugnum þegar afi hans, Sigurbjörn Eiríksson athafnamaður, rak skemmtistaðinn Glaumbær árið 1963 sem síðar varð einn vinsælasti skemmstistaður landsins. 

„Þá fóru sögur af ungmennum sem tróðu sér inn á staðinn í gegnum klósettgluggann. Þarna var alltaf röð niður á tjörn.“

Síðast gripið til lokunar í september

Öllum var vísað út í nótt og sagði í dagbók lögreglu í nótt að staðurinn ætti von á kæru. Í því sambandi segir Sverrir:

„Ég hef lengi verið í ýmsum rekstri og alltaf átt gott samstarf við lögregluna. Lögreglumennirnir sem komu í gær voru ljúfir og kurteisir. Ég hef ekkert út á störf lögreglunnar að setja varðandi gærkvöldið.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem staðnum er lokað en í september var Sverrir leiddur í járnum af staðnum samtímis lokun lögreglu.

Sendi hann eftir það út yfirlýsingu um ágreining um vinnubrögð lögreglu við eftirlit á B þar sem hann taldi lögreglu ekki hafa gætt meðalhófs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert