„Mér sýnist þetta bara vera uppbygging fyrir næsta gos,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjalla- og bergfræði, í samtali við Morgunblaðið um landris á Reykjanesskaga sem nýjustu GPS-mælingar gefa til kynna en frá þessu greindi Veðurstofa Íslands í gær.
Telur prófessorinn þó fullsnemmt að fara að ræða um tímasetningar næsta goss. „Nú er kvikuhólfið þarna undir að fyllast og þessi gangur sem verið hefur virkur síðustu þrjú ár fer þá af stað aftur, en það virðist ekki komið svo langt á leið enn sem komið er svo ég myndi halda einhvern tímann á næsta ári,“ segir Þorvaldur um næsta gos á skaganum.
Aðspurður kveðst hann telja að það gos yrði ekki ósvipað þeim sem nýlega hafa orðið á svæðinu og varanleiki þess einhverjar vikur eða mánuðir. „Það sem er kannski athyglisverðast við þetta ferli allt saman er að þarna er sama gosrásin að virkjast aftur og aftur. Ef við hugsum um þennan gang sem fólk hefur verið að tala um, sem nær kannski upp í að vera á eins til tveggja kílómetra dýpi, þá er eins og hann nái ekki að kólna á milli atburða og verði því virkur aftur,“ heldur Þorvaldur áfram.
Spurningin sé svo bara hvar gosið komi upp.
„Þetta er athyglisverð þróun en veldur mér pínulitlum áhyggjum. Við vitum það að á fyrri tíð myndaði þetta kerfi hraunið sem nær alveg frá Fagradalsfjalli og alveg norður eftir, niður að strönd við Voga og Vatnsleysu. Við vitum í raun og veru ekki nákvæmlega hvernig uppbyggingin fyrir slíkt gos er.“