Skemmtistað lokað og öllum vísað út

Skemmtistað var lokað í miðbæ Reykjavíkur og öllum gestum vísað …
Skemmtistað var lokað í miðbæ Reykjavíkur og öllum gestum vísað út. mbl.is/Ari

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði ölvaðan ökumann í Háaleitis- og Bústaðahverfi í gærkvöldi. Maðurinn reyndi að villa um fyrir lögreglu með því að skipta um sæti og neitaði einnig að segja til nafns.

Var hann fluttur á lögreglustöð þar sem blóðsýni var tekið og þar gaf hann að lokum upp nafn sitt, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Þá var skemmtistað lokað í miðbæ Reykjavíkur og öllum gestum vísað út þar sem nokkur fjöldi ungmenna var inni á staðnum. Fram kemur að forráðamenn staðarins eigi von á kæru vegna málsins.

„Algjörlega óviðræðuhæfur“

Maður var handtekinn vegna meiriháttar líkamsárásar í Kópavogi í gærkvöldi og vistaður í fangaklefa.

Þá handtók lögregla annan mann vegna líkamsárásar í Breiðholti. Maðurinn var „algjörlega óviðræðuhæfur“ sökum ástands og var hann vistaður í fangaklefa.

Þá varð umferðaróhapp í miðbæ Reykjavíkur þar sem ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og ók í gegnum grindverk. Engin slys urðu á fólki en bíllinn er óökufær eftir óhappið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert