Upplýsingapóstur sem foreldrum barna í Laugarnesskóla barst í gær hefur vakið mikil viðbrögð í skólasamfélaginu.
Þetta segir Björn Gunnlaugsson, skólastjóri skólans, í nýjum tölvupósti sem hann sendi foreldrum nú síðdegis.
Greint var frá því í gær að starfsmaður Laugarnesskóla hefði verið handtekinn í kjölfar alvarlegs atviks í skólanum, þar sem hann og nokkur börn áttu í hlut.
Björn ítrekar í tölvupóstinum í dag að málið sé unnið í samstarfi við foreldra þeirra barna sem áttu í hlut og aðra sem að málinu koma.
„Við í Laugarnesskóla gerum okkur grein fyrir áhyggjum ykkar og höfum fullan skilning á þeim,“ skrifar hann.
„Málið er til rannsóknar hjá þar til bærum aðilum og að svo stöddu hefur skólinn því miður ekki heimild til að upplýsa nánar um málsatvik. Tekið skal fram að umræddur starfsmaður er í leyfi meðan málið er rannsakað. Við vonumst til að geta veitt nánari upplýsingar þegar rannsókn er lokið.“