„Eftir allan þennan spuna er verið að gefa þjóðinni langt nef,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, um stólaskipti fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. Hún segir einnig að fráfarandi fjármálaráðherra skilji við ráðuneytið á óróatímum í efnahagsmálum.
Bjarni Benediktsson tilkynnti á blaðamannafundi fyrir hádegi að hann myndi skipta um embætti við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra.
Morgunblaðið hafði þegar heimildir fyrir því að Þórdís og Bjarni myndu skipta um ráðherrastól.
„Það sýnir hvað það er búinn að vera mikill óróleiki hjá stjórnarflokkunum að þau þurftu blaðamannafund til þess að sýna fram á hvað þau eru ótrúlega samhent. Þau stóru tíðindi gerðust að það væru stólaskipti í ríkisstjórninni,“ segir Þorgerður Katrín í samtali við mbl.is.
„Síðan hitt: það kom ekkert fram hvernig þau ætla að tækla þessi stóru mál sem þau hafa enn ekki komið sér saman um sjálf,“ segir hún.
Nefnir hún ýmsa hluti sem hún telur ríkisstjórnina hafa mátt gera grein fyrir á blaðamannafundinum, m.a. aðhald í ríkisfjármálum, 8% verðbólgu, sjávarútvegsmál, halla í ríkissjóði næstu ár, auk þess sem „þau geta ekki tekið ákvarðanir í loftslagsmálum“.
„Það er enginn að axla ábyrgð,“ bætir hún við og bendir á að þegar slök framkvæmd Íslandsbanka við söluna á útboði á 22,5% eignarhlut ríkisins í bankanum kom í ljós hafi stjórnarformaður og bankastjóri Íslandsbanka sagt af sér – „það voru engin stólaskipti á þeim bæ“.
„Þetta er náttúrulega bráðfyndið,“ bætir hún við.
„Það verður auðvitað eftirsjá að Þórdísi sem utanríkisráðherra,“ segir Þorgerður og nefnir að tilvonandi fjármálaráðherra blasi við fjöldi erfiðra verkefna í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
„Við megum ekki gleyma því að það er verið að skilja við fjármálaráðuneytið þegar staðan í efnahagsmálum er þessi – langmesta verðbólgan innan Evrópu, við erum með margfalt hærra vaxtastig og erum að skila miklum halla í fjárlögum næstu árin,“ segir hún.
„Mér finnst þetta draga fram – ekki bara hversu ríkisstjórnin er sundruð, að þau þurfi heilan blaðamanna fund, heldur líka að þau eru ekki með augun á boltanum. Með fullri virðingu til þeirra sem eru í ríkisstjórn, þá þurfum við ríkisstjórn sem er starfhæf og tekur ákvarðanir.“