Útilokar ekki frekari ráðherraskipti

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segist sáttur með …
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segist sáttur með ákvörðun Bjarna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eftir þessa viku og umrótið en ekki síst eftir mjög góðan sameiginlegan fund þingflokkanna á Þingvöllum í gær, þá er ég sannfærður um að það séu allir með sömu sýn á það að klára þetta verkefni og að þessi ríkisstjórn klári þetta kjörtímabil.“

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannesson innviðaráðherra um þá ákvörðun Bjarna Benediktssonar, fráfarandi fjármála- og efnahagsráðherra, að skipta um ráðherra­stól við Þór­dísi Kol­brúnu Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ur, frá­far­andi ut­an­rík­is­ráðherra.

Stólaskiptin koma í kjölfar þess að Bjarni sagði af sér embætti  fjár­málaráðherra á þriðju­dag­inn, eftir álit umboðsmanns Alþing­is um söl­una á hlut Íslands­banka.

Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson eftir blaðamannafundinn í morgun.
Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson eftir blaðamannafundinn í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Segir sátt ríkja hjá Framsóknarflokknum

Sigurður segir að sátt ríki hjá honum og félögum Framsóknarflokksins með þá ákvörðun Bjarna um að skipta um ráðuneyti og sitja áfram í ríkisstjórn eftir að hafa sagt af sér embætti. Spurður hvort að hann hefði viljað sjá einhverja aðra útfærslu svarar hann því neitandi.

„Þetta er bara niðurstaða sem við höfum verið að ræða og erum að sjálfsögðu sátt við hana.“

Bjarni sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að hann hefði tekið þessa ákvörðun til að hlúa að pólitískum stöðugleika og til að tryggja áframhaldandi samstarf ríkisstjórnarinnar. Spurður hvort hann sjái fyrir sér samstarf með sömu flokkum á næsta kjörtímabili segir Sigurður fullfljótt að tala um það.

„Miðað við skoðanakannanir þá ætti maður kannski að tala sem minnst um það, en skoðanakannanir eru bara mæling á því hvernig fólki líður á hverjum tíma. Kosningar eru aftur á móti hinn raunverulegi mælikvarði á stuðningi við flokka og við sjáum bara til hvernig það verður á þeim tíma.“

Ræddu alls konar útfærslur

Spurður hvort komið hafi til skoðunar hjá Framsóknarflokknum að nýta tækifærið og gera ráðherraskipti hjá þingmönnum flokksins segir Sigurður:

„Það er gott við okkar samstarf að við getum rætt alls konar hluti. Það var hins vegar aldrei komið á það stig að við værum að ræða það sem hugsanlega ákvörðun heldur þurfum við bara að vera undirbúin að ræða hluti sem gætu komið upp. Það var fyrst og fremst þetta sem var til ákvörðunar.“

Aðspurður segist hann ekki ætla að útiloka neitt varðandi ráðherraskipti hjá ráðherrum Framsóknarflokksins á þessu kjörtímabili. 

„Ég ætla ekki að útiloka neitt. Það sögðum við líka fyrir tveimur árum og það hafa sannarlega orðið einhverjar breytingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert