700 manns mættu: „Góð stemning á erfiðum degi“

Í fyrramálið verður Isaac vísað úr landi í fylgd tveggja …
Í fyrramálið verður Isaac vísað úr landi í fylgd tveggja lögregluþjóna. Þróttarar héldu styrktarleik fyrir hann þar sem hann skoraði þrennu og varði vítaspyrnu á síðustu mínútunni. Samsett mynd/mbl.is/Óttar

Um 700 manns mættu á styrktarleikinn sem Þrótt­ar­ar efndu fyr­ir Isaac Kwateng, vall­ar­stjóra fé­lags­ins, í dag. Eins og mbl.is hefur fjallað um stend­ur til að vísa hon­um af landi brott á morgun í fylgd tveggja lögreglumanna, eft­ir sex ára bið og óvissu hér á landi.

Isaac, sem er frá Gana, kom hingað til lands árið 2017 og sótti þá um alþjóðlega vernd en var fyrir nokkrum vikum tjáð að vísa ætti hon­um úr landi.

Allt Þrótt­ara­sam­fé­lagið ákvað því að sýna stuðning í verki fyr­ir Isaac og mætti SR, varalið Þrótt­ar sem hann hef­ur spilað með und­an­far­in þrjú ár, stjörnuliði Þrótt­ar. Í því liði spiluðu leik­menn úr meist­ara­flokk­um karla og kvenna auk óvænt­ra stjarna sem gert hafa garðinn fræg­an með Þrótti.

Hjálmar Örn Jóhansson skemmtikraftur var þulur á styrktarleiknum fyrir Isaac …
Hjálmar Örn Jóhansson skemmtikraftur var þulur á styrktarleiknum fyrir Isaac í dag. mbl.is/Óttar

Skilur stundum ekki þessa stefnu

Hjálmar Örn Jóhansson skemmtikraftur, sem var þulur á styrktarleiknum í dag, segir við mbl.is að stemningin á vellinum hafi – þrátt fyrir allt – verið afar góð.

„Maður áttar sig á því hvað fólk getur staðið mikið saman þegar svona lagað er yfirvofandi. Það var rosalega mikill samhugur hjá fólki og bara svona góð stemning á erfiðum degi,“ segir Hjálmar.

Isaac skoraði þrjú mörk í leiknum.
Isaac skoraði þrjú mörk í leiknum. mbl.is/Óttar

„Maður hálfpartinn skilur stundum ekki þessa stefnu, að maður sem er bara í fullri vinnu og er að gera fáránlega góða hluti, skuli ekki geta haldið því áfram á landi sem er allt of stórt.“

Hann kveðst því vona að einhver hjá stjórnvöldum hafi nógu mikla samvisku í sér „til þess að snúa þessu við“.

Um 700 manns komu til að sýna Isaac stuðning.
Um 700 manns komu til að sýna Isaac stuðning. mbl.is/Óttar

Þungt mál en gaman að sjá stuðninginn

María Edw­ards­dótt­ir, framkvæmda­stjóri Þrótt­ar sem hef­ur verið Isaac inn­an hand­ar, segir í samtali við mbl.is að um 700 manns hafi mætt til þess að fylgjast með styrktarleiknum.

Isaac skoraði þrjú mörk í leiknum og varði einnig vítaspyrnu á lokamínútu leiksins frá gamla Þróttaranum Axel Gomez, með tilheyrandi fagnaðarlátum. Jafntefli var niðurstaðan í leiknum en lokatölur voru 7:7 í Laugardalnum.

Styrktarleikurinn var haldinn fyrir Isaac.
Styrktarleikurinn var haldinn fyrir Isaac. mbl.is/Óttar

„Þetta er pínu þungt en það var gaman að sjá stuðning samfélagsins hér í Laugardalnum,“ segir María í samtali við mbl.is

María segir að að inni liggi þrjár um­sókn­ir hjá Útlendingastofnun (ÚTL) um frestun brottvísunar. Enn hafa eng­in svör borist frá ÚTL og því tel­ur María ljóst að þau muni ekki ber­ast fyrr en það verður um sein­an. Hún heldur þó enn í vonina, þar sem enn á eftir að taka mál Isaacs fyrir, og ef umsóknin er samþykkt verði ekki hikað við að bóka næsta flug heim.

„Það væri þannig séð hægt að samþykkja þetta á morgun [mánudag] og þá kemur hann bara með næstu vél heim.“

Isaac Kwateng á styrktarleiknum í dag.
Isaac Kwateng á styrktarleiknum í dag. mbl.is/Óttar
mbl.is/Óttar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert