Um 700 manns mættu á styrktarleikinn sem Þróttarar efndu fyrir Isaac Kwateng, vallarstjóra félagsins, í dag. Eins og mbl.is hefur fjallað um stendur til að vísa honum af landi brott á morgun í fylgd tveggja lögreglumanna, eftir sex ára bið og óvissu hér á landi.
Isaac, sem er frá Gana, kom hingað til lands árið 2017 og sótti þá um alþjóðlega vernd en var fyrir nokkrum vikum tjáð að vísa ætti honum úr landi.
Allt Þróttarasamfélagið ákvað því að sýna stuðning í verki fyrir Isaac og mætti SR, varalið Þróttar sem hann hefur spilað með undanfarin þrjú ár, stjörnuliði Þróttar. Í því liði spiluðu leikmenn úr meistaraflokkum karla og kvenna auk óvæntra stjarna sem gert hafa garðinn frægan með Þrótti.
Hjálmar Örn Jóhansson skemmtikraftur, sem var þulur á styrktarleiknum í dag, segir við mbl.is að stemningin á vellinum hafi – þrátt fyrir allt – verið afar góð.
„Maður áttar sig á því hvað fólk getur staðið mikið saman þegar svona lagað er yfirvofandi. Það var rosalega mikill samhugur hjá fólki og bara svona góð stemning á erfiðum degi,“ segir Hjálmar.
„Maður hálfpartinn skilur stundum ekki þessa stefnu, að maður sem er bara í fullri vinnu og er að gera fáránlega góða hluti, skuli ekki geta haldið því áfram á landi sem er allt of stórt.“
Hann kveðst því vona að einhver hjá stjórnvöldum hafi nógu mikla samvisku í sér „til þess að snúa þessu við“.
María Edwardsdóttir, framkvæmdastjóri Þróttar sem hefur verið Isaac innan handar, segir í samtali við mbl.is að um 700 manns hafi mætt til þess að fylgjast með styrktarleiknum.
Isaac skoraði þrjú mörk í leiknum og varði einnig vítaspyrnu á lokamínútu leiksins frá gamla Þróttaranum Axel Gomez, með tilheyrandi fagnaðarlátum. Jafntefli var niðurstaðan í leiknum en lokatölur voru 7:7 í Laugardalnum.
„Þetta er pínu þungt en það var gaman að sjá stuðning samfélagsins hér í Laugardalnum,“ segir María í samtali við mbl.is
María segir að að inni liggi þrjár umsóknir hjá Útlendingastofnun (ÚTL) um frestun brottvísunar. Enn hafa engin svör borist frá ÚTL og því telur María ljóst að þau muni ekki berast fyrr en það verður um seinan. Hún heldur þó enn í vonina, þar sem enn á eftir að taka mál Isaacs fyrir, og ef umsóknin er samþykkt verði ekki hikað við að bóka næsta flug heim.
„Það væri þannig séð hægt að samþykkja þetta á morgun [mánudag] og þá kemur hann bara með næstu vél heim.“