Berst einn í deilu um „íslenska kókaínið“

Árni Rúnar Örvarsson vill fullframleiða vöru á Íslandi en lendir …
Árni Rúnar Örvarsson vill fullframleiða vöru á Íslandi en lendir á veggjum ráðuneytis og hagsmunaaðila. Ljósmynd/Aðsend

Ungur æðarbóndi hefur barist við að fá breytingu á vottunarkerfi á æðardúni í fjögur og hálft ár. Hann segist mæta veggjum hvarvetna. Bæði hjá ráðuneytinu og Æðarræktarfélagi Íslands sem heldur utan um hagsmuni dúnræktenda.

Sá sem berst gegn og fyrir nýju kerfi er Árni Rúnar Örvarsson, 29 ára bóndi í Fljótunum í Skagafirði. Hann hefur lagt til nýtt vottunarkerfi í samstarfi við erlent fyrirtæki en málið er að sögn Árna fast í argaþrasi hjá Æðarræktarfélagi Íslands sem þó var falið það hlutverk af ráðherra að sammælast um nýtt vottunarkerfi fyrir þremur árum. 

Einungis örfáir 400 æðardúnsbænda framleiða vöru úr hráefninu. Núverandi vottunarkerfi reiðir sig á huglægt mat dúnmatsmanns sem kalla þarf til hverju sinni til að votta dúninn ef til stendur að framleiða vöru úr honum.   

Árni segir kerfið kostnaðarsamt og seinvirkt og ekki fari saman hagsmunir hans sem vill fullframleiða vöru úr dúninum hér á landi og þeirra sem selja hrádún úr landi. Af þeim sökum sjái hann ekki fram á að nein niðurstaða komist í málið sem sé miður þar sem hann vilji halda verðmætunum sem af framleiðsunni skapast innanlands í stað þess að dúnninn sé seldur erlendis og skapi þar margfalda framlegð.   

75% á heimsmarkaði frá Íslandi 

Um 75% æðardúns á heimsmarkaði kemur frá Íslandi eða um 3000 af 4000 kg. Æðarvörp landsins eru um 400. Dúnninn er í flestum tilfellum hreinsaður hér á landi og fluttur út sem hrávara. Mestmegnis til Þýskalands og Japan. Þar er varan unnin. Dúnninn er afar verðmætur og nýlegri grein í Guardian er vísað til hans sem hins íslenska kókaíns (The Icelandic cocaine). Dæmi eru um að sængur t.a.m séu seldar á hundruð þúsunda og upp undir tvær milljónir króna á markaði. 

Árni er eigandi Icelandic Eider. Hann hefur einn fárra æðarbænda fullunnið æðardún. Setti hann nýlega á fót útivistarvörumerki en hann þarf lögum samkvæmt að kalla til dúnvottsmann í hvert skipti sem framleitt er. 

Um 75% af æðardúns á heimsmarkaði kemur frá æðarfugli á …
Um 75% af æðardúns á heimsmarkaði kemur frá æðarfugli á Íslandi.

Horfir yfir öxlina 

Engir staðlar eru til staðar sem vottunarmanni ber að að uppfylla. Áður en dúnninn er vottaður er hann handfjatlaður af einhverjum þeirra þrettán æðardúnsvottunarmanna sem matvælaráðuneytið hefur veitt löggildingu hér á landi. Kostnað við að kalla hann til ber bóndinn.  

Að sögn Árna þarf dúnmatsmaður stundum að koma langar vegalengdir, handfjatla dúninn, hrista 30 grömm yfir hvítu blaði og passa að ekki sé of mikið ryk í honum.

„Þetta er algjörlega huglægt álit og engar rannsóknir þarna á bakvið. Þegar dúnn telst metinn er hann innsiglaður með vottorði, sem er ritað á pappír og auð-falsanlegt í poka,“ segir Árni. 

Ef til stendur að fullvinna vöruna t.a.m. með því að gera sæng þarf dúnmatsmaður að koma aftur og rjúfa innsiglið.

„Hann þarf að horfa yfir öxlina á viðkomandi aðila sem býr til æðardúnssængina til þess að það sé sannarlega æðardúnn sem fer í sængina. Sængin er svo innsigluð í tösku og fær nýtt mat. Það gefur augaleið að þetta kerfi sé gjörsamlega úrelt, kostnaðarsamt og engin leið að rekja dúninn,“ segir Árni.

Æðardúnn er munaðarvara sem getur gengið kaupum og sölum fyrir …
Æðardúnn er munaðarvara sem getur gengið kaupum og sölum fyrir háar upphæðir. Ljósmynd/aðsend

Til stóð að fella lögin úr gildi 

Árið 2019 hóf Árni umleitanir í samvinnu við erlent vottunarfyrirtæki (International Down and Feather Laboratory) um nýtt kerfi sem reiðir sig á m.a. erlenda matsmenn þar sem dúnn er m.a. sendur út tvisvar á ári, samhliða því sem hreinsistöðvarnar eru vottaðar í stað þess að dúnninn sé vottaður frá hverjum bónda. Kostnaður er fastur og dreifist jafnt á alla. Að sögn Árna hefur reynslan sýnt að sambærilegt vottunarkerfi erlendis með annars konar dún hafi leitt til hærra afurðarverðs.    

Fyrirtækið tók að sögn Árna vel í málið og hannaði nýjan gæðastaðal fyrir íslenskan æðardún sem ekki var til staðar áður. Var hann kynntur fyrir Kristjáni Þór Júlíussyni í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu árið 2020. Kristján staðfestir í samtali við mbl.is að sá fundur hafi farið fram. 

Snemma árs 2020 stóð til að fella úr gildi þau lög sem gilda um gæðamat á æðardúni án samráðs við hagsmunaaðila. Eftir samtal á milli Æðarræktarfélags Íslands við ráðuneytið var hins vegar fallist á það að finna nýja lausn á gæðamati æðardúns. Æðarræktarfélaginu var falið það verkefni og átti Árni sæti að borðinu þar. 

„Í kjölfarið af þessu fundaði ég sjálfur með Kristjáni Þór, þáverandi sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra og hans aðstoðarmanni. Kristján var auðvitað aðeins nokkrum dögum frá því að hætta sem ráðherra en skildi mín sjónarmið vel en bað mig um að ræða við Æðarræktarfélagið,“ segir Árni.

Allt endar hjá Æðarræktarfélaginu  

Árni segir að honum hafi fljótlega verið ljóst þegar hann hóf samtal með þeim um nýtt vottunarkerfi að hann væri að berjast við gamalt „rotið kerfi.“

„Sjónarmið Æðarræktarfélags Íslands og okkar sem fullvinnum vörur passa ekki saman. Ég átti fund með Svandísi (Svavarsdóttur) fljótlega eftir að hún tók við embætti og mætti þar sama skilninsleysi og var bent á að tala bara við Æðarræktarfélagið,“ segir Árni. 

„Ég brá á það ráð að fá leyfi frá IDFL til þess að geta rætt við Æðarræktarfélagið. Við hittumst á fundi ásamt IDFL og þau ætluðu að skoða þetta í samráði við matvælaráðuneytið. Það var árið 2020. Síðan þá hefur Æðarræktarfélagið haldið aðalfundi og aukafundi þar sem þetta málefni er rætt en hér stöndum við í dag, fjórum og hálfu ári eftir að ég hófst handa við að breyta núverandi kerfi og rúmum þremur árum eftir að Æðarræktarfélagi Íslands var falið það verkefni að finna lausn á þessu máli. Sú lausn er ekki í sjónarmáli og mun sennilega ekki vera næstu ár,“ segir Árni.  

Málið hefur farið fyrir tvö ráðuneyti án þess að haggast.
Málið hefur farið fyrir tvö ráðuneyti án þess að haggast.

Galið að ráðuneytið standi í vegi 

„Mér hefði ekki dottið í hug fyrir meira en fjórum árum að ég væri enn að hjakkast í þessu gamla kerfi. Að  reyna að fá þetta í gegn og það á lokametrunum fyrir sölu og opnun á útivistamerkinu okkar.

„Einnig er galið að matvælaráðuneytið sé það eina sem standi í vegi fyrir því að við fáum að lyfta íslenskum æðardúni á hærra plan, fá hærra afurðaverð og geta fullnýtt hann hérlendis og haldið allri verðmætasköpuninni í landinu,“ segir Árni.

Haft var samband við Æðarræktarfélagið við vinnslu fréttarinnar. Hyggst félagið senda skrifleg svör við fyrirspurn mbl.is eftir helgi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert