Háskóli Íslands varar við tilraunum til netsvika í nafni háskólans. Vefsíða í nafni HÍ er uppi á ensku þar sem reynt er að blekkja notendur til að skrá sig í nám við skólann.
Samtímis því eru notendur krafðir um greiðsluupplýsingar eins og verið sé að innheimta skráningargjald í HÍ. Þetta kemur fram í tilkynningu frá háskólanum.
„Við fyrstu sýn virðist ekkert athugavert við síðuna en þegar grannt er skoðað er margt vafasamt. Aðilar sem hafa svona síður virkar virðast enda æ klókari í að setja gögn fram til að blekkja fólk,“ segir í tilkynningunni.
Umrædd vefsíða sé aðeins gerð til að hafa fé af fólki ólöglega eða fá fram fjárhagslegar upplýsingar til að nota í ólöglegum tilgangi.
Háskólinn hvetur fólk til að sniðganga síðuna alfarið og setja engin gögn inn á hana, enda sé einungis hægt að skrá sig til náms á vef Háskóla Íslands.