Birtingarmyndir ofbeldis gagnvart hinsegin fólki hafa lítið verið rannsakaðar. Rannsóknir sýna þó að hinsegin börn og unglingar upplifa meiri kvíða, reiði og óánægju með lífið. Hvaða áhrif hefur það á stöðu þeirra í samfélaginu og getu til að takast á við mótlæti eða ofbeldi? Bjóða stofnanir upp á þjónustu fyrir hinsegin fólk?
Þetta er meðal þess sem Svandís Anna Sigurðardóttir, verkefnastýra fræðslu og forvarna hjá Stígamótum, fjallaði um í erindi á ráðstefnu um ofbeldismenn á Íslandi. Erindið bar yfirskriftina Getur ofbeldi verið hinsegin? og fjallaði um ofbeldi í hinsegin samböndum og hvers vegna hinsegin fólk er bæði ólíklegra til að segja frá og leita sér aðstoðar, verði það fyrir ofbeldi.
„Hinsegin hópurinn er alltaf í einhvers konar baráttu til að sýna að við eigum skilið sömu réttindi og aðrir og að við séum gott fólk og gott samfélag. Það er mjög erfitt að fara síðan að stinga einhvern veginn á þetta kýli og segja: „Heyrðu reyndar það er ofbeldi í okkar samböndum, eða, við erum að upplifa eitthvað í nánum samböndum hjá okkur líka,“ segir Svandís.
Hún segir þannig margt spila inn í flókinn veruleika hinsegin fólks og það ofbeldi sem það upplifir almennt. Hvort sem það er í nánum samböndum, í samfélaginu eða annars staðar. Hverjir eru gerendur og hvernig þeir beita ofbeldinu, en Svandís segir ofbeldi sem hinsegin fólk verður fyrir eiga sér sérstæðar birtingarmyndir.
„Inn í þetta spilar vanþekking á birtingarmyndum ofbeldis gagnvart hinsegin fólki almennt. Vanþekking á hvað hinsegin fólk upplifir mikið ofbeldi, ekki einungis í nánum samböndum heldur almennt í samfélaginu. Við erum að sjá rannsóknir á hinsegin börnum og ungmennum sem sýna að þeim líður verr en öðrum ungmennum. Það er meiri kvíði, reiði og óánægja með lífið. Þannig að þetta er ekki góður staður til að byrja á og fara öruggur inn í sambönd ef við erum að horfa á það.“
Í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum hinsegin fólks er áætlað að skoða sérstaklega heimilisofbeldi gagnvart hinsegin fólki. Svandís kallar þó eftir því að þessi hópur verði skoðaður í víðara samhengi. Einkum þar sem þær rannsóknir sem þó hafa verið gerðar sýna að sláandi hátt hlutfall hinsegin fólks verður fyrir ofbeldi, hvort sem það er kynferðislegt, andlegt eða líkamlegt.
Í erindi sínu fjallaði Svandís jafnframt um þau úrræði sem í boði eru hér á landi, bæði fyrir brotaþola og ofbeldismenn. Úrræðin setti hún í sögulegt samhengi og minnti á að hinsegin fólk hefur ekki alltaf getað treyst öllum þeim stofnunum sem vinna í ofbeldismálum.
„Af hverju ætti ég að gera ráð fyrir því að einhver stofnun sé vel að sér, eða muni taka vel á móti mér sem hinsegin manneskju, ef sú stofnun eða sá aðili hefur aldrei sagt það. Þori ég að leitast eftir aðstoð? Hvaða viðbrögð fæ ég? Verður litið á þetta jafn alvarlegum augum?“
Er þá mikilvægt að stofnanir auglýsi þjónustu sína sérstaklega fyrir hinsegin fólk?
„Ég myndi segja það. En það er algjörlega bannað samt að henda bara upp regnbogafána og segja „Hinsegin fólk velkomið“ án þess að eiga inni fyrir því. Ef þú ætlar að fara að taka á móti hinsegin fólki þá þarftu að vita aðeins um hvað þú ert að tala. Kann ég að tala um hinsegin fólk? Hvernig lítur hópurinn út og hvað segja rannsóknir og kannanir.“
Í því samhengi segir hún marga óörugga um hvernig eigi að nota fornöfn og hvort eigi að tala um hinsegin fólk eða samkynhneigða. Því þurfi fólk að fá fræðsluna, vera með einhverja þekkingu og vera tilbúið til að endurskoða þekkinguna, vera í einhverjum tengslum eða eiga í samtali við hinsegin samfélagið.
„Þá hefur það efni á að auglýsa sig,“ segir Svandís og leggur áherslu á mikilvægi þess að veitendur þjónustu séu meðvitaðir um birtingarmyndir ofbeldis hjá hinsegin fólki.
Svandís segir bakslagið í baráttu hinsegin fólks hafa mikil áhrif innan hinsegin samfélagsins og að fólk sé orðið bugað og þreytt, enda erfiður veruleiki að þurfa ávallt að berjast fyrir tilvist sinni.
„Það er alltaf þetta að við þurfum að vera fín. Við erum búin að berjast fyrir réttinum um að fá að skrá okkur í hjúskap, gifta okkur og eignast börn. Til þess að fá þessi réttindi höfum við þurft að segja: „Við erum frábær, við kunnum að fara vel með hjónaband og við kunnum að ala upp börnin og við gerum það rosa vel. Sjáiði, sjáiði hvað við erum flott„. Það er því þungt skref fyrir marga að segja: „Reyndar er líka ofbeldi í okkar samböndum og reyndar er allskonar í gangi hér, auðvitað eins og annars staðar“.
Þá segir Svandís:
„Það er hópur í samfélaginu sem telur að ég sé að brengla í börnum og þetta byggir allt á því að hinsegin fólk sé verra en annað fólk. Fólk er tilbúið að grípa alls konar vitleysu og rangfærslur og fara alla leið með þær.“