Agnes hafði ekki umboð til að reka Gunnar

Agnes M. Sigurðardóttir biskup hafði ekki umboð til að segja …
Agnes M. Sigurðardóttir biskup hafði ekki umboð til að segja Sr Gunnari Sigurjónssyni upp störfum.

Úrskurðarnefnd Þjóðkirkjunnar hefur ákveðið að fella úr gildi ákvörðun Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, um að víkja sr. Gunnari Sigurjónssyni úr embætti sóknarprests í Digranesprestakalli.

Niðurstaða nefndarinnar er sú að Agnes hafi ekki haft umboð til þess að taka slíkar ákvarðanir eftir 30. júní árið 2022 þegar skipunartími hennar rann út.

Engin kosning fór fram 

Lítur málið að breytingu á lögum um Þjóðkirkjuna frá því í júlí 2021 sem kveður m.a. um aukið sjálfstæði Þjóðkirkjunnar. Þegar skipunartími Agnesar rann út var sú nýlunda á málum að í stað þess að hún væri skipuð upp á gamla mátann var gerður við hana ráðningasamningur frá 1. júlí 2022 til 31. október 2024.

Var það þrátt fyrir að heimild til biskupskjörs hafi verið samþykkt af Kirkjuþingi í mars 2022. Engin kosning fór hins hins vegar fram heldur ákveðið að láta Agnesi sinna biskupsstörfum áfram. 

Sökum þess að engin kosning fór fram er það mat úrskurðarnefndarinnar að Agnes hafi ekki haft umboð til að taka ákvarðanir í máli Gunnars eftir 30. júní 2022 þegar skipunartími hennar rann út en áminning sem honum barst er dagsett 6. september og var honum svo tilkynnt um brottvikningu úr starfi þann 14. september samkvæmt ákvörðun biskups. 

„Almennt verður að líta svo á að ákvörðun starfsmanns, sem tekin er að, liðnum skipunartíma í embætti sé markleysa,“ segir í úrskurðinum. 

Sakaður um áreitni

Forsaga málsins er sú að í upphafi árs 2022 sökuðu sex einstaklingar Gunnar um einelti og kynbundna áreitni og var hann í framhaldinu sendur í tímabundið leyfi frá prestakallinu.

Var það til að gefa teymi á vegum Þjóðkirkjunnar ráðrúm til að framkvæma athugun á málinu. Teymið skilaði niðurstöðu 29. júlí 2022 og úr varð að hann var áminntur og tilkynnt um afsögn. 

Í úrskurði er ekki tekin afstaða til þessara mála og ekki gerð athugasemd við að Gunnar hafi verið sendur í leyfi á meðan skipunartíma Agnesar naut. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert