Ekki skylt að greiða laun í kvennaverkfalli

Samtök atvinnulífsins minna á að heils dags verkfall, boðað af …
Samtök atvinnulífsins minna á að heils dags verkfall, boðað af stéttarfélögum launafólks, getur varðað við ákvæði vinnulöggjafarinnar. Eggert Jóhannesson

Engin skylda hvílir á atvinnurekendum að greiða laun í fjarvistum starfsmanna í fyrirhuguðu kvennaverkefalli sem boðað hefur verið til í næstu viku.

Um þetta er fjallað á vef Samtaka atvinnulífsins (SA). Sem kunnugt er hefur verið boðað til heils dags kvennaverkfalls á þriðjudag í næstu viku, 24. október.  Á fjórða tug samtaka launafólks og kvennasamtaka standa að verkfallinu og hafa hvatt konur til að leggja niður launuð og ólaunuð störf þennan dag.

SA segja í færslu á heimasíðu sinni að samtökin styðji við baráttu gegn mismunun og ofbeldi og að atvinnulífið beri ótvíræðan hag af því að allt starfsfólk fái notið eigin verðleika og hafi jöfn tækifæri til launa, starfa og starfsþróunar óháð kynferði.

„Samhliða stuðningi við málefnið minna SA á að mikilvægt er að gætt sé meðalhófs við mótmælin enda geta þau raskað starfsemi fyrirtækja og stofnana. Kvennafrídagsins hefur áður verið minnst með þeim hætti að konur hafa lagt niður launuð störf hluta úr degi, en nú á að ganga mun lengra,“ segir í færslunni. Þá leggja SA áherslu á að konur sem hyggist taka þátt í kvennafríinu óski með góðum fyrirvara eftir samtali við sinn atvinnurekanda um með hvaða hætti best er að koma við fjarvistum þennan dag.

„Engin skylda hvílir á atvinnurekendum að greiða laun í fjarvistum sem þessum,“ segir í færslunni.

„Hafa þarf í huga að heils dags verkfall, boðað af stéttarfélögum launafólks, getur varðað við ákvæði vinnulöggjafarinnar. Þótt stéttarfélögin boði mótmælin sem verkfall þá stendur ekki til að greiða félagsfólki bætur úr verkfallssjóðum félaganna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert