Í læknaslopp með 15 kg af kannabis

Maðurinn var handtekinn á Keflavíkurflugvelli þegar hann reyndi að nálgast …
Maðurinn var handtekinn á Keflavíkurflugvelli þegar hann reyndi að nálgast tösku meints vinar síns sem hafði að geyma 15 kg af kannabisefnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bandarískur karlmaður hefur verið dæmdur í 15 mánaða fangelsi, þar af 12 mánuði skilorðsbundið, fyrir hlut sinn í innflutningi á 15,1 kg af maríhúana til landsins í maí. Í dómi Héraðsdóms Reykjaness er saga mannsins, sem sagðist hafa komið hingað sem meðferðarráðgjafi fyrir vímuefnasjúklinga, sögð með miklum ólíkindablæ og ótrúverðug og beri með sér að vera röng í öllum meginatriðum. Inn í söguna blandast meðal annars Ms. T., Coastal Connect og gamli æskuvinurinn Frankie Sims sem átti tösku í óskilum á Keflavíkurflugvelli.

Málið má upphaflega rekja til þess að reynt var að innrita tvær farangurstöskur í flug frá Baltimore í Bandaríkjunum. Slíkt á ekki að vera hægt nema viðkomandi farþegi fari sjálfur um borð, en í þetta skiptið virðist sem önnur taskan hafi samt sem áður farið um borð. Var taskan merkt Frankie Sims.

Klæddur í hjúkrunarfatnað og hvítan læknaslopp

Sjö dögum síðar mætti maður að nafni Devonta Carroll, sem jafnframt er sá ákærði í þessu máli, í farþegaþjónustuna á Keflavíkurflugvelli og spurðist fyrir um töskuna. Sagðist hann vinur Sims og gaf hann upp fullnægjandi gögn fyrir því að geta sótt töskuna. Vakti það athygli starfsmanns að Carroll var klæddur í bleikan hjúkrunarfatnað og hvítan læknaslopp.

Hins vegar þarf að fara með töskur í þessum tilvikum í gegnum tollskoðun og samþykkti Carroll það og fór í leitaraðstöðu tollgæslunnar þar sem taskan var gegnumlýst. Meðan á því stóð óskaði hann eftir því að fara á snyrtingu og fékk leyfi til þess, en kom ekki til baka. Hafði hann þá farið beint í gegnum tollinn og hætt við að athuga með töskuna.

Æskuvinur sem hann hafði ekki hitt í yfir áratug

Í töskunni reyndist vera fjöldi stórra loftþéttra svartra umbúða. Var ein þeirra opnuð, en hún var í þreföldu plasti, og gaus þá upp kannabislykt. Var þá farið að leita að Carroll og fannst hann í komusalnum. Sagðist hann undrandi á þessu öllu.

Við tóku skýringar hjá Carroll sem virtust eiga litla stoð í raunveruleikanum. Hann sagðist í fyrsta lagi þekkja Frankie Sims lítið. Þeir hefðu verið æskuvinir, en ekkert verið í sambandi síðan þeir voru 10-11 ára, eða í yfir áratug. Þeir hafi hins vegar nýlega hist fyrir utan verslunarmiðstöð í Maryland í Bandaríkjunum og ákveðið að skiptast á símanúmerum.

Ekki með nafn sjúklings eða bókaða gistingu

Frankie hafi svo haft samband við sig og spurt hvort hann gæti sótt töskuna fyrir sig sem gleymst hafði á flugvellinum. Við það bætist að Carroll sagði í skýrslutöku hjá lögreglu að ástæða þess að hann hafi komið til Íslands væri sú að hann væri m.a. starfsmaður heilbrigðisfyrirtækisins Medix í Bandaríkjunum og að hann hafi átt að hitta hugsanlegan skjólstæðing hér á landi.

Kom jafnframt fram að hann hefði starfað á meðferðarstofnun fyrir vímuefnasjúklinga. Þá hafi verið ákveðið að senda hann til Íslands með tveggja tíma fyrirvara, en Carroll var ekki með bókaða gistingu hér né vissi nafnið á viðkomandi sjúklingi, né hvers eðlis þjónusta hans átti að vera.

Staðfesting úr icloud.com netfangi

Verjandi Carroll sendi lögreglu tölvupóst sem átti að vera staðfesting á vinnu Carroll fyrir Medix, en það var póstur frá konu að nafni Ashley með netfang sem endaði á icloud.com. Var þar bent á Brittany nokkra í mannauðsdeild Medix. Jafnframt fylgdi símanúmer.

Þegar lögregla hringdi í símanúmerið svaraði Brittany en kynnti hvorki sig né fyrirtækið. Þegar hún var upplýst að þetta væri lögreglan á Íslandi sagði hún af fyrra bragði að hún ynni hjá fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu. Bað lögreglan hana um að senda póst á netfang lögreglunnar svo hægt væri að senda formlega upplýsingabeiðni, en Brittany sagði að vegna anna myndi það taka nokkra daga. Enginn póstur barst frá henni.

Engin tenging við Ísland

Lögreglan leitaði einnig af sér grun með því að hringja í beint númer Medix fyrirtækisins. Þaðan fékkst formlegt svar um að hvorki ákærði né Brittany væru starfsmenn né verktakar á vegum fyrirtækisins. Þá var einnig tekið fram að engin tenging væri við Ísland né að starfsmenn þess eða verktakar ferðuðust út fyrir Bandaríkin til að sinna aðstoð við sjúklinga.

Hjá Home.care fengust þær upplýsingar að maðurinn hefði verið sjálfstæður verktaki til ársins 2018, en ekkert eftir það. Carroll sagðist einnig vinna fyrir annað fyrirtæki, MD MATT. Rannsakandi fann fyrirtæki með MD MATT sem hluta af nafni sínu og sagði ákærði það vera fyrirtækið þar sem hann ynni. Fengust þau svör að Carroll hefði unnið hjá fyrirtækinu, en svo hætt að mæta og verið sagt upp fyrir meira en mánuði.

Grunsamleg samskipti á Telegram

Við skoðun lögreglu á farsíma Carroll komu í ljós samskipti á Telegram-rás, en þar ræddi hann við Ms.T og Coastal Connect, en hann sagði það vera frænku sína og vinkonu. Í samskiptunum mátti sjá hvernig honum var leiðbeint í gegnum ferlið á flugvellinum. Gat hann ekki gefið skýringar á því. Síðar var honum þar sagt að flýja þegar tollgæslan var að skoða töskuna og voru Ms. T og Coastal Connect að reyna að útvega honum flugfar frá Keflavík til Parísar.

Í dóminum kemur fram að framburður Carroll þyki ótrúverðugur, enda ekki á einn veg. Þá sé ekki vitað til þess að sjúklingum hér á landi sé sinnt frá Bandaríkjunum með þeim hætti sem Carroll lýsti. Er það í raun sagt fjarstæðukennt í dóminum. „Þá er einnig mjög ólíklegt að maður sé sendur þaðan til að hitta hugsanlegan skjólstæðing hér á landi án þess að hafa nokkrar upplýsingar um viðkomandi. Hvað þá að maður væri sendur hingað til lands í þessum tilgangi með tveggja klukkustunda fyrirvara,“ segir í dómi héraðsdóms.

„Með miklum ólíkindablæ og ótrúverðugur“

Þar er einnig komið inn á samskipti Carroll og Sims, meintra æskuvina. Segir að það verði að teljast mjög ólíklegt að maður sem ekki hafði hitt Carroll í 10-15 ár, fyrir utan í eitt skipti við verslunarmiðstöð, hafi beðið hann um að sækja fyrir sig tösku með 15 kg af fíkniefnum án þess að Carroll vissi nokkuð um töskuna. Segir dómarinn að framburðurinn sé allur „með miklum ólíkindablæ og ótrúverðugur“ og beri þess öll verki að vera rangur í öllum meginatriðum.

Þá er einnig vísað til þess að framburður starfsmanns í farþegaþjónustu bendi til þess að enginn misskilningur hafi verið um að Carroll hafi í raun ætlað að sækja töskuna. Samskiptin á Telegram bendi jafnframt til þess að hann hafi ekki átt að koma hingað til lands til að hitta hugsanlegan sjúkling, heldur til að nálgast töskuna. Skipulagið um að panta flug til Parísar bendi jafnframt til þess að hann hafi haft óhreint mjöl í pokahorninu.

Læknafötin hluti af einhverju óeðlilegu

Dómurinn tekur einnig af vafa um hvort Carroll hafi í raun tekið við töskunni. Segir þar að þótt taskan hafi í raun aldrei verið í hans höndum, þá hafi hann verið búinn að fá hana afhenta þegar starfsmaður farangursþjónustunnar fór með töskuna ásamt Carroll til tollgæslunnar.

Að lokum er tekið fram að mjög óvenjulegt sé að fólk ferðist um í læknafötum, jafnvel þótt það ferðist um til að sinna vinnu sem lælknir. Því bendi klæðnaðurinn til þess að hann hafi verið hluti af einhverju óeðlilegu segir í dóminum.

Þó er tekið fram að ekki verði fullyrt að Carroll hafi verið eigandi fíkniefnanna eða fjármagnað innflutninginn. Í raun bendi gögn málsins til þess að fleiri en hann hafi staðið að innflutningnum. Er því talið hæfilegt að dæma hann í 15 mánaða fangelsi, þar af 12 mánuði skilorðsbundna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert