IKEA-geitin er kominn á sinn stað fyrir utan verslun fyrirtækisins í Kauptúni í Garðabæ. Það er ekki seinna vænna, en 71 dagur er til jóla. Löng hefð er fyrir því að geitin standi fyrir framan verslunina. Hún hefur gert það í aðdraganda jólanna síðastliðin 14 ár.
Jólageitin er engin smásmíði. Hún er tíu metra há og milli sjö og átta tonn á þyngd. Notast þarf við krana til að koma henni á sinn stað.
Geitin hefur orðið fræg fyrir ítrekaðar íkveikjutilraunir. Hún hefur þó fengið að standa óáreitt í þónokkurn tíma. Ekki hefur tekist að kveikja í henni síðan 2016.
Guðný Camilla Aradóttir, verslunarstjóri IKEA, segir í samtali við mbl.is að hún voni að geitin fái að vera áfram í friði. Öryggisráðstafanir eru gerðar um geitina sem er vöktuð allan sólarhringinn.
„Hún er mjög vel vöktuð,“ segir Guðný.