Issac farinn af landi brott

Issac Kwateng í kveðjuleiknum í Laugardalnum í gær.
Issac Kwateng í kveðjuleiknum í Laugardalnum í gær. mbl.is/Óttar

Ganamaðurinn Isaac Kwateng, vallarstjóri Þróttar Reykjavíkur, er farinn af landi brott en hann var sendur úr landi í fylgd tveggja lögreglumanna í morgunsárið.

Isaac kom hingað til lands árið 2017 og sótti þá um alþjóðlega vernd en fyrir nokkrum vikum var honum tjáð að vísa ætti honum úr landi.

„Hann var sóttur klukkan 5 í morgun og er núna í flugi á leið til Amsterdam og fer svo þaðan til Gana. Það voru tveir lögreglumenn sem komu og sóttu Isaac og þeir sögðust fylgja honum alla leið til Gana. Upphaflega var talað um að hann myndi fljúga í gegnum París en svo breyttist það,“ segir María Edwardsdóttir, framkvæmdastjóri Þróttar, í samtali við mbl.is.

„Ég og einn þjálfari hjá okkur sem hefur unnið með Isaac vorum með honum þegar hann var sóttur í nótt. Við hittumst í gærkvöldi og borðuðum saman og við vorum svo með honum í nótt. Að sjálfsögðu var kveðjustundin erfið en við höfum reynt að stappa í hann stálinu,“ segir María.

María segir að þrjár umsóknir liggi inni um endurupptöku á umsókn um alþjóðlega vernd sem ekki hafa verið teknar til efnislegrar meðferðar.

 „Í mínum huga er þetta bara mannvonska en við höldum í vonina um að Isaac snúi aftur til baka sem fyrst. Ég fékk fréttir um að umsóknin hafi verið kominn á borð lögfræðings í síðustu viku en það tókst ekki að klára málið og við vissum í hvað stefndi þegar það fór að líða á föstudaginn,“ segir María en í gær var haldinn styrktarleikur fyrir Isaac þar sem 700 manns mættu í Laugardalinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka