Kwateng ekki ofsóttur af réttum aðilum

Þróttarar efndu á dögunum til styrktarleiks fyrir Isaac Kwateng en …
Þróttarar efndu á dögunum til styrktarleiks fyrir Isaac Kwateng en honum var fylgt úr landi í morgun þar sem hann telst ekki flóttamaður samkvæmt úrskurði kærunefndar um útlendingamál frá 2018. mbl.is/Hákon

Ganamaðurinn Isaac Kwateng, fyrrverandi vallarstjóri Þróttar, sem vísað var úr landi í morgun og hélt til Gana í fylgd tveggja lögreglumanna, reyndist, samkvæmt úrskurði kærunefndar um útlendingamál frá 18. nóvember 2018, ekki eiga rétt á alþjóðlegri vernd á Íslandi samkvæmt lögum um útlendinga og staðfestir kærunefndin með úrskurði sínum ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja Kwateng um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Byggði Kwateng umsókn sína um alþjóðlega vernd á þeim málsástæðum að honum stafaði ógn af tilteknum aðilum í heimaríki sínu og ofsóknum þeirra. Samkvæmt útlendingalögum eru þeir aðilar sem valdir geta verið að ofsóknum tæmandi taldir og eru ríkið, hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess og aðrir aðilar sem ekki fara með ríkisvald ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök, sem nánar eru afmörkuð í lögunum, þar með taldar alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem lögin kveða nánar á um hvað felist í.

Lagði að samfélaginu að hafna samkynhneigð

Komst Útlendingastofnun, og í kjölfarið kærunefndin, að þeirri niðurstöðu að Kwateng væri ekki flóttamaður í skilningi laganna og rekur kærunefndin málsástæður Kwatengs í úrskurði sínum.

Kwateng er fæddur í úthverfi borgarinnar Ayerabi í Austur-Gana. Er hann kristinnar trúar og tilheyrir ættbálkinum Achem. Greindi hann frá áreiti er hann varð fyrir í desember 2016 er hann predikaði kristna trú ásamt vini sínum. Lögðu þeir vinirnir þar áherslu á að samkynhneigð væri óboðleg innan kristinnar trúar og skyldi samfélagið því hafna þeirri hneigð.

Kvaðst Kwateng sjálfur mjög mótfallinn samkynhneigð en í þorpi hans, sem telur um 4.000 íbúa, hafi viðhorf til samkynhneigðar breyst verulega undanfarin ár með þeim afleiðingum að margir þorpsbúa hafi komið út úr skápnum sem kallað er, það er opinberað samkynhneigð sína.

Í kjölfar predikunar Kwatengs og vinar hans hafi fjórir menn ráðist að þeim, beitt þá grófu ofbeldi og lagt að þeim að láta af predikunum sínum gegn samkynhneigð ellegar hefðu þeir verra af. Flúðu þeir Kwateng þá af predikunarstaðnum og leituðu til lögreglu sem ekkert gat aðhafst þar sem ekki hafi verið borin kennsl á mennina. Hafi þeir vinurinn haldið sig heima eftir atlöguna en þeir bjuggu saman.

Flúði út um glugga

Skömmu síðar, í janúar 2017, fór vinur Kwatengs út og sá Kwateng þá út um glugga hvar sömu menn réðust á hann. Sjálfur hafi hann flúið út um glugga á bakhlið hússins en vinurinn látist af sárum sínum á sjúkrahúsi.

Kveðst Kwateng þá hafa flúið til héraðsins Ashanti en ofsækjendur elt hann þangað og nú með liðsauka. Hafi móðir hans þá komið honum í samband við smyglara sem földu hann á öruggum stað og útveguðu honum í kjölfarið vegabréfsáritun til Evrópu. Hafi hann þá haldið til Austurríkis og smyglarinn sem hann var í sambandi við beðið hann að dvelja á ákveðnum stað þar til hann kæmi til baka.

Ekkert hafi svo bólað á smyglara þessum og Kwateng því sótt um alþjóðlega vernd í Austurríki 9. mars 2017. Við málarekstur í tengslum við þá umsókn hafi komið á daginn að hann var með vegabréfsáritun til Íslands og hann því sendur hingað til lands 18. janúar 2018.

Leiði líkur að ofsóknum með rökstuddum hætti

Krafðist Kwateng þess í málinu hér á landi að honum yrði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamanni með vísan til laga um útlendinga þar sem hann sætti ofsóknum í heimaríki og grundvallarmannréttindi hans væri ekki tryggð. Héldi hann sig utan heimaríkis af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna trúarbragða og aðild hans að tilteknum þjóðfélagshópi.

Útlendingastofnun sagði í ákvörðun sinni á sínum tíma að Kwateng hefði ekki lagt fram nein gögn til að sanna á sér deili og því leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Kom þar fram að ekki þætti ástæða til að draga þjóðerni hans í efa en að öðru leyti væri óljóst um persónu hans.

Lagði kærunefnd mat á aðstæður í Gana með hliðsjón af ýmsum skýrslum, meðal annars frá bandarísku leyniþjónustunni CIA og mannúðarsamtökunum Amnesty International og eru niðurstöður þess mats raktar í úrskurðinum sem hlekkjaður er við þessa frétt neðanmáls. Segir svo meðal annars í úrskurðinum:

Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

[...]

Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér bendir ekkert til þess að þeir sem mæli gegn samkynhneigð eigi á hættu að verða fyrir áreiti eða ofsóknum, enda séu kynferðis- og ástarsambönd milli tveggja karlmanna refsiverð í heimaríki kæranda. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir, gegn einstaklingum sem mæli gegn samkynhneigð, hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Þau gögn sem kærunefnd hefur skoðað benda fremur til þess að samkynhneigðir einstaklingar standi höllum fæti í heimaríki kæranda. Með tilliti til gagna málsins sem og þess að kærandi hafi ekki lagt fram gögn til stuðnings frásögn sinni er það niðurstaða kærunefndar að framburður kæranda og lýsingar á ástæðum flótta verði ekki lögð til grundvallar í máli hans.

Raunveruleg hætta skilyrði

Segir svo í úrskurði að með vísan til ofangreinds „er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga“ og virðist þar augljós villa hafa slæðst inn í úrskurð kærunefndarinnar og orðið „ekki“ fallið niður þar sem í næstu málsgrein kemur fram að nefndin telji Kwateng ekki uppfylla skilyrði téðrar lagagreinar.

Vísar kærunefndin svo í 2. málsgrein sömu greinar laganna þar sem kveðið er á um að útlendingur teljist einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildi um ríkisfangslausan einstakling.

Segir nefndin svo Mannréttindadómstól Evrópu hafa fjallað um það mat sem fara þurfi fram við mat á því hvort umsækjendur um vernd séu í raunverulegri hættu á að verða fyrir þeirri meðferð sem nánar er fjallað um í 3. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem leggur bann við pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í framhaldi segir svo:

Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum.

Styðji ekki sjónarmið Kwatengs

Telur nefndin þau atriði sem hún tíundar í úrskurði sínum og fyrirliggjandi gögn um heimaríki Kwatengs ekki styðja þau sjónarmið hans að aðstæður hans geti fallið undir ákvæði 2. málsgreinar 37. greinar laganna fyrir viðurkenningu á stöðu hans sem flóttamanns hér á landi.

Segir þá að með vísan til alls þess sem rakið sé í úrskurðinum og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þyki rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og lagði nefndin í úrskurðarorðum fyrir Kwateng að hverfa af landi brott og veitti honum fimmtán daga frest til að gera svo sjálfviljugur.

Úrskurður kærunefndar útlendingamála

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert