„Já, ég get staðfest það. Rannsóknin snýr að brotum gegn ákvæðum kynferðisbrotakafla hegningarlaganna,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar, spurður að því hvort mál starfsmanns í Laugarnesskóla, sem handtekinn var fyrir helgi á skólatíma, sé nú skoðað sem kynferðisbrotamál.
Greint var frá því á mbl.is á föstudaginn að starfsmaður Laugarnesskóla hefði verið handtekinn í kjölfar alvarlegs atviks í skólanum, þar sem hann og nokkur börn áttu í hlut.
„Ég er ekki alveg með það á takteinunum en þetta var einhver hópur barna sem þetta varðar,“ segir Grímur.
Þá segir hann að verið sé að skoða hvort um hafi verið að ræða einstakt atvik eða hvort brotin hafi staðið yfir í einhvern tíma.
„Það er einmitt það sem er til rannsóknar, hvort þetta hafi verið einstakt atvik og hvernig það var til komið eða hvort þetta hafi verið til lengri tíma, þetta er allt saman undir í rannsókninni.“
Að sögn Gríms hefur starfsmaðurinn ekki komið við sögu lögreglunnar áður en málið er litið mjög alvarlegum augum og segir hann verklagið skýrt.
„Börnin eru yfirheyrð og hinn grunaði er yfirheyrður og síðan er reynt að skoða með önnur gögn sem styðja eftir atvikum við rannsóknina með einum eða öðrum hætti,“ segir hann að lokum.